Innflutningur byggingarhráefnis var meiri á fyrstu sex mánuðum ársins en hann hefur verið á öðrum árshelmingum síðustu tveggja ára. Sömuleiðis hefur skoðunum á byggingarkrönum fjölgað, sem bendir til þess að virknin á byggingarmarkaðnum hafi aukist í ár.
Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu um vöruviðskipti við útlönd hafa tæp 50 þúsund tonn af ýmsum byggingarhráefnum verið flutt inn til landsins á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 15 prósenta aukning frá því á sama tímabili í fyrra, þar sem innflutningur þessara hráefna nam 43 þúsund tonnum.
Hráefnin sem um ræðir eru timbur, krossviður, spónar, byggingarplötur, rúðugler, steypustyrktarjárn og þakjárn. Líkt og sést á mynd hér að neðan náði innflutningur þessara hráefna hámarki á fyrri hluta ársins 2018 en minnkaði svo stöðugt að síðari hluta ársins 2019. Síðan þá hefur innflutningurinn aukist með hverjum árshelmingnum, þótt hann hafi ekki enn náð fyrri hæðum.
Innflutningurinn er í ágætu í samræmi við svokallaða kranavísitölu vinnueftirlitsins, sem sýnir fjölda skoðana á byggingarkrönum hverju sinni. Samkvæmt vinnueftirlitinu gefur vísitalan góða mynd á þann fjölda byggingarkrana sem er í notkun hverju sinni, en þeir voru fleiri á fyrstu sex mánuðum ársins en þeir voru í fyrra. Þó eru þeir ekki jafnmargir og þeir voru á árinu 2018.
Samdráttur í framboði en áhugi á byggingu hagkvæmra íbúða
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun greindi frá því í síðustu mánaðarskýrslu sinni að framboð íbúða til sölu hafi dregist hratt saman á síðustu tólf mánuðum alls staðar á landinu nema á Norðurlandi vestra. Samdrátturinn hefur verið mestur á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum.
Stofnun greindi hins vegar frá því að mikill áhugi væri á meðal byggingaraðila um að byggja íbúðir sem samræmdust reglum um hlutdeildarlán. Því sagði hún að ljóst væri að talsvert af hagkvæmum íbúðum myndi líta dagsins ljós á næstu árum.