Hækkun á álagningu á smásöluverð eldsneytis hjá íslensku olíufélögunum hefur leitt til þess að útgjöld neytenda vegna eldsneytiskaupa hafi hækkað um 500 milljónir króna á einu ári. Á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið þá hefur álagning íslensku olíufélaganna (Skeljungs, N1, Olís og Atlantsolíu) aukist umtalsvert. Þetta kemur fram í útreikningum sem Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) hefur gert og greint var frá í hádegisfréttum RÚV.
Þar var haft eftir Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra FÍB, að álagning hafi hækkað um 1,5 krónur í álagningu síðustu tólf mánuði. Það kosti neytendur hálfan milljarð króna. Ástæðan væri einfaldlega viðleitni markaðarins um að bæta við álagningu. Íslenskir neytendur búa við um helmingi hærri álagningu á eldsneyti en Svíar og Danir.
Runólfur benti á að Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, hefði viðurkennt þessa aukningu á álagningu í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar 2015. Þar var Valgeir spurður hvort álagningin væri meiri en áður og svarið var einfalt: "Já, það er rétt að álagning er hærri".
Útsöluverð á bensíni er nánast það sama hjá öllum olíufélögunum. Hjá Skeljungi er lítrinn á 221,7 krónur en hjá Orkunni, sem er í eigu Skeljungs, kostar hann 219,5 krónur. Hjá N1 er hann á 219,8 krónir, hjá Olís 219,8 krónur (ÓB sem er í eigu Olís selur hann á 219,6 krónur) og hjá Atlantsolíu er lítrinn á 219,6 krónur.