Lesendur Austurfréttar völdu Tinnu Rut Guðmundsdóttur frá Reyðarfirði sem Austfirðing ársins 2014. Hún sagði í Austurglugganum í lok nóvember frá áralangri baráttu sinni við átröskun með einlægum og áhrifamiklum hætti. Hún segir viðurkenninguna mikinn heiður sem hjálpi henni við að halda réttri stefnu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Austufréttum.
„Þetta er mér mikil viðurkenning. Hún gefur mér færi á að halda mínu striki og koma í veg fyrir að ég fari út í eitthvað rugl aftur," sagði Tinna í samtali við Austurfrétt. Hún tók við viðurkenningu frá Austurfrétt og gjafabréf frá Hótel Hallormsstað/Valaskjálf á heimili sínu í Grafarvogi á föstudagskvöld.
Tinna Rut er 29 ára gömul og uppalin á Reyðarfirði. Hún hefur síðan í menntaskóla barist við átröskun. Hún skrásetti baráttusögu sína til birtingar í Austurglugganum í nóvember.
Tæplega tvö þúsund atkvæði bárust í kjörinu og sigraði Tinna með töluverðum yfirburðum en hún fékk 45,1% atkvæða.