Ársávöxtun einstaklinga af útleigu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er á bilinu 6,5 til 9,1 prósent miðað við þinglýsta leigusamninga frá 30. júní 2014 til 31. júlí 2015, samkvæmt samantekt Þjóðskrár Íslands á ávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis á landinu. Á landinu öllu er ávöxtun mest á Norðurlandi utan Akureyrar og á Vestfjörðum.
Þjóðskrá reiknar ársávöxtun sem hlutfall af ársleigu og fasteignamati íbúðar.
Yfirliti þjóðskrár er skipt eftir stærð íbúða, hverfum Reykjavíkur og landsvæðum. Þá eru birt mismunandi yfirlit eftir því hvort leigusali er einstaklingur, fyrirtæki eða fjármálastofnun. Alls eru 5.996 leigusamningar undirliggjandi í úrvinnslu en ávöxtunin tekur ekki tillit til breytinga á fasteignaverði, sem getur verið mismunandi eftir svæðum.
Ávöxtun einstaklinga af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu er mest í Breiðholti, eða á bilinu 8,4 til 9,1 prósent eftir stærð íbúða. Töflurnar hér að neðan, fengnar af vefsíðu Þjóðskrár, sýna ávöxtun leigusala af útleigu íbúðarhúsnæðis. Smella má á myndirnar til að stækka þær.