Fólkið í bakherberginu fylgist spennt með endurskipulagningunni á fjármálakerfi Íslands, sem nú fer fram bak við luktar dyr, samhliða áformum um afnám fjármagnshafta sem stjórnmálamenn komu á með lögum í nóvember 2008. Fólkið í bakherberginu er hrætt um að stjórnmálmennirnir, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í broddi fylkingar, séu að einblína um of á skammtímaávinning af því að þjóðnýta eignir kröfuhafa í bú föllnu bankanna í stað þess að afnema höftin.
En það er ekki hægt annað en að vona að það besta í þessum efnum, og eflaust er fólk að leggja sig fram við að reyna að finna lausnir á þessum vandamálum sem stjórnmálamenn komu á með lögum í nóvember 2008, þegar allsherjarvantraust á íslensku krónunni skaut rótum á markaði eftir að spilaborgir bankanna féllu með reykmekki sem enn er að hverfa. Vandamálin eru stór og mikil, og því miður læðist sá grunur að fólkinu í bakherberginu að engar töfralausnir verði dregnar fram í þessum efnum, heldur muni haftabúskapur einkenna íslenska hagkerfið í mörg ár til viðbótar, jafnvel þó einhver skref verði stigin í átt til rýmkunar á næstunni.
Eitt af því sem vakið hefur áhuga fólksins í bakherberginu er möguleg breyting á eignarhaldi bankanna, og þar helst hugsanleg sala á Íslandsbanka til erlendra fjárfesta. Kjarninn hefur sagt fréttir af þessum málum, reglulega, líkt og fleiri fjölmiðlar, og meðal annars greint frá því að fjárfestar frá ríkjum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum sýni því áhuga að kaupa Íslandsbanka.
Fólkið í bakherberginu er hugsi yfir þessu og á bágt með að skilja hvaða hag fjáfestar frá ríkjum við Persaflóa sjá í því að kaupa pínulítinn íslenskan banka, á alþjóðlegan mælikvarða, inn í fjármagnshöftum. Síðast þegar fréttir bárust af því að fjárfestar frá ríkjum við Persaflóa væru að sýna áhuga á hlutabréfum í íslenskum banka þá varð það mikil raunasaga þegar yfir lauk. Sjeik Mohammed bin Khalifa Al Thani, frændi Emírsins í Katar, var þá sagður vera kaupandi fimm prósent hlutafjár í Kaupþingi, í september 2008, en þau viðskipti hafa nú verið dæmd hluti af fordæmalausri markaðsmisnotkun og umboðssvikum stjórnenda Kaupþingis sem fengu fangelsisdóma fyrir.
Fólkið í bakherberginu spurðist fyrir um það í dag, hvort fjármála- og efnhagsráðuneytið, sem fer óbeint með 5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka, hefði fengið einhverjar upplýsingar í hendur um það hvaða fjárfestar þetta væru frá ríkjum við Persaflóa sem hefðu áhuga á Íslandsbanka. Svo er ekki. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur engar upplýsingar fengið um þetta, eftir því sem fólkið í bakherberginu kemst næst.
Auðurinn í ríkjum Persaflóa er gífurlega mikill, en í Katar safnast hann á örfáar hendur í hlutfallslegum samanburði við mannfjölda og efnahagsstærðir. Flestar þessar hendur tengjast fjölskyldu Emírsins, Al Thani fjölskyldunni. Fólkið í bakherberginu telur það vera vissara fyrir stjórnvöld að fullkanna þessar eignarhaldsbreytingar ef til þess að kemur að veðjað verður á fjármagn frá ríkjum við Persaflóa. Síðast þegar það átti að vera gerast endaði það nefnilega með ósköpum.