Bakkastakkur slhf. hefur undirritað samkomulag við PCC SE um þátttöku í fjármögnun á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Eigendur Bakkastakks eru á annan tug lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Verkefnið er nú fullfjármagnað en heildarfjárfestingin vegna verksmiðjunnar er um 300 milljónir dollara eða á fjórða tug milljarða íslenskra króna. Verkefnið er fjármagnað að stórum hluta með erlendu lánsfé frá leiðandi þýskum banka, segir í fréttatilkynningunni.
„Rúmur fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið. Fjármögnunin er háð vissum skilyrðum, t.d. eru gerðir fyrirvarar við atriði er lúta að rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA á samningum vegna verksmiðjunnar við Landsvirkjun og Landsnet,“ segir í tilkynningunni
Þá segir einnig að framkvæmdin byggi á því að endurgreiðsla á fjármagni sem í hana fer, hjálpi lífeyrissjóðunum að dreifa áhættu í eignasöfnum þeirra. „Framkvæmdin styður atvinnuuppbyggingu á Íslandi en búast má við að hún skapi um 120 störf. Þá hentar fjárfestingin lífeyrissjóðunum vel þar sem endurgreiðsla hennar er til langs tíma í erlendum gjaldmiðlum og dreifir þannig áhættu í eignasöfnum þeirra.“
PCC er alþjóðleg fyrirtækjasamsteypa undir forystu þýska móðurfélagsins PCC SE sem hefur aðsetur í Duisburg. Hjá PCC starfa nú meira en 2.800 starfsmenn á 37 vinnustöðum í 16 löndum. Velta samstæðunnar, sem deilist á þrjá starfsþætti; efnaiðnað, orkuiðnað og flutninga, nam 625 milljónum evra árið 2013, eða tæplega 100 milljörðum króna.