Alls fóru um 76 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum frá Ferðamálastofu, en það er um helmingi færri farþegar en fóru um völlinn á sama tíma árið 2019. Ekki hefur enn tekist að vinna úr því bakslagi í ferðamannafjöldanum sem varð eftir að kórónuveirusmitum tók að fjölga vegna Ómíkron-afbrigðisins, en sérstaklega hefur fækkað í hópi Bandaríkjamanna á síðustu þremur mánuðum.
Ferðamálastofa greinir frá því að ferðamannafjöldinn sé gjörbreyttur frá því á síðasta ári, þegar brottfarir voru um þrjú þúsund talsins. Í ár voru þær álíka margar og árið 2015, en um og yfir helmingi færri en í febrúar árin 2019 og 2020. Nærri tvær af hverjum fimm brottförum voru tilkomnar vegna Breta.
Myndin hér að neðan sýnir farþegafjöldann í hverjum mánuði frá upphafi faraldursins, ef miðað er við sama mánuð árið 2019. Samkvæmt henni dró verulega úr muninum í fyrra, en í október síðastliðnum var fjöldi ferðamanna orðinn 63 prósent af þeim fjölda sem fór um Keflavíkurflugvöll í nóvember 2019.
Í kjölfar uppgötvunar á Ómíkron- afbrigðinu hefur þó orðið viðsnúningur á þessari þróun. Á síðustu þremur mánuðum hafa erlendir farþegar um Keflavíkurflugvöll verið um helmingi færri en á sama tíma fyrir þremur árum síðan.
Mest hefur fækkað í hópi bandarískra ferðamanna, en heildarfjöldi þeirra í síðasta mánuði nam aðeins 40 prósentum af samsvarandi fjölda í febrúar árið 2019. Fyrir Ómíkron-bylgjuna var fjöldi þeirra þó næstum því kominn aftur í eðlilegt horf, en í október var hann 90 prósent af samsvarandi fjölda þeirra fyrir þremur árum síðan.