Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, kynnir innan tíðar fyrir gríska þinginu framvindu skuldaviðræðna Grikkja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandið. Vaxandi óánægja hefur verið með samningaviðræðurnar hjá grískum þingmönnum, ekki síst innan Syriza, stjórnarflokksins í landinu. Búist er við því að umræðurnar í þinginu muni standa langt fram á kvöld.
Tsipras hefur sent frá sér yfirlýsingu sem ætti að gefa nokkra mynd af því sem hann mun segja við þingið. Hann segir þar að lánardrottnar Grikklands hafi lagt fram tillögur á miðvikudag sem ekki sé hægt að ganga að og þær séu öfgafullar. Stofnanirnar þrjár hafi sýnt lítinn vilja til málamiðlana og setja megi spurningamerki við það hvort þeir vilji í raun ná einhverju samkomulagi.
Þá segir hann að tillögur Grikkja á lausn vandans séu ekki í samræmi við upphaflegar áætlanir þeirra heldur séu þær málamiðlanir. Hins vegar verði samkomulag ekki gert nema lofað sé að setja upp góða fjárfestingaráætlun, ríkisskuldir verði endurskipulagðar, gerð verði krafa um lítinn afgang af fjárlögum og engar frekari skerðingar verði gerðar á launum og lífeyri.
Það virðist því lítið miða áfram í átt að lausn málsins, en aðilar þess þurfa að koma sér saman um umbætur í Grikklandi áður en AGS og ESB leysa út 7,2 milljarða evra sem Grikkir þurfa nauðsynlega á að halda.
Grikkland átti að greiða til baka 300 milljónir evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag en gerði það ekki. Stjórnvöld segjast hafa átt peningana til en hafi ákveðið að borga ekki nú heldur sameina allar fjórar endurgreiðslur júní-mánaðar í einu í lok mánaðarins. George Stathakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði við fjölmiðla fyrr í dag að ekki væri hægt að ganga að kröfunum sem nú eru uppi um umbætur á gríska kerfinu. Þrátt fyrir það ætluðu Grikkir sér ekki að fara út úr evrusamstarfinu