Bandaríkjaher hefur ákveðið að efla heri í Austur-Evrópu með því að leggja þeim til skriðdreka, vopn og mannskap, til að efla varðstöðu við Rússland. Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um þetta í dag á blaðamannafundi, en aðstoðin mun einkum koma til í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen en einnig munu Pólland, Búlgaría og Rúmenía fá aðstoð. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Bandaríkin gera þetta í samvinnu við Atlantshafsbandalagið NATO, og er ákvörðunin byggð á mati um að Rússar, með Vladímir Pútín forseta í broddi fylkingar, séu að sækja fram inn í Evrópu, einkum í Úkraínu, og ógni öryggi Evrópuþjóða með framgöngu sinni.
Carter sagði í opinberri heimsókn til Tallin, höfuðborgar Eistlands, að herstuðningur Bandaríkjanna yrði mikilvægur til að efla öryggi í heiminum öllum, þar með talið Bandaríkjunum.