Bandaríska sóttvarnastofnunin CDC hefur uppfært áhættumat sitt fyrir ferðalög til Íslands upp á þriðja stig af fjórum, sem þýðir að Bandaríkjamönnum er ráðlagt að tryggja að þeir séu bólusettir ef þeir hyggja á ferðalög til Íslands, en óbólusettum er ráðlagt frá því að ferðast til landsins ef erindið er ekki brýnt.
Ísland er ekki komið á þann stað í áhættumati CDC að sóttvarnastofnunin mæli alfarið gegn ferðalögum til Íslands, óháð því hvort ferðamenn eru bólusettir eða ekki.
Nokkrum Evrópuríkjum hefur í vikunni verið bætt í þann hóp, en nú mælast bandarísk sóttvarnayfirvöld gegn því að fólk ferðist til Andorra, Gíbraltar, Grikklands, Írlands og Möltu. Að auki hafa bandarísk sóttvarnayfirvöld mælst gegn ferðalögum til Kýpur, Spánar, Portúgals, Bretlands og Hollands frá því fyrr í sumar.
Er smitum tók að fjölga á Íslandi og útlit varð fyrir að Ísland færi að detta inn á „rauða lista“ hvað varðar ferðalög utan úr heimi og hingað lýstu talsmenn ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar yfir miklum áhyggjum af stöðu mála.
Forsætisráðherra sagði sömuleiðis eftir ríkisstjórnarfund á Egilsstöðum þar sem ákveðið var að herða sóttvarnaráðstafanir innanlands að ein af ástæðunum fyrir því að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að grípa til takmarkana væri að það væri mikilvægt að Ísland lenti ekki á rauðum lista hvað varðar ferðalög hingað.
Ísraelar munu þurfa í sóttkví eftir Íslandsferð
Uppfærðar reglur taka gildi í Ísrael á miðvikudag í næstu viku, sem skikka komufarþega frá ákveðnum löndum í sóttkví, óháð aldri og því hvort fólk er bólusett eða ekki. Ísland er á meðal þeirra ríkja sem munu bætast við listann í næstu viku, samkvæmt frétt ísraelska blaðsins Haaretz.
Farþegar sem fara frá Íslandi til Ísrael munu því þurfa að undirgangast tvær skimanir með sjö daga sóttkví á milli. Hið sama mun eiga við um farþega sem koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og fleiri ríkjum til viðbótar.