Þrettán bandarískir öldungadeildarþingmenn hafa sent Sepp Blatter, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, bréf þar sem þeir óska þess að sambandið færi heimsmeistaramót karla í knattspyrnu frá Rússlandi. Rússar eiga að halda keppnina árið 2018.
Bréfið var sent á þriðjudag en gert opinbert í gærkvöldi. Þingmennirnir segja í því að það að leyfa Rússum að halda keppnina muni auka hróður stjórnvalda í ríkinu og það sé óviðeigandi á tímum sem Vladimír Pútín og stjórn hans eigi að hljóta fordæmingu heimsins. Þá hafi yfir 40 ríki beitt Rússa refsiaðgerðum og keppni eins og þessi muni létta á efnahagslegri spennu þar.
Fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, John McCain, er meðal þeirra sem skrifa undir bréfið. Þingmennirnir hvetja Alþjóðaknattspyrnusambandið einnig til að halda sérstakan fund þar sem kosið verði um málið.
Forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, hvatti til þess í síðsta mánuði að ríki heimsins hugleiddu að sniðganga heimsmeistaramótið nema Pútín dragi herlið á sínum vegum frá Úkraínu. Hann sagðist venjulega vilja halda stjórnmálum og fótbolta aðskildum en það væri ekki hægt nú þegar eitt besta knattspyrnufélag Úkraínu, Shakhtar Donetsk, þarf að spila heimaleiki sína í yfir þúsund kílómetra fjarlægð frá heimavellinum vegna þess að Donetsk er á valdi aðskilnaðarsinna.