Bandaríska verðbréfaeftirlitið, SEC, samþykkti í dag nýja reglu sem skyldar fyrirtæki til þess að birta opinberlega upplýsingar um launamun milli forstjóra fyrirtækis og dæmigerðs starfsmanns þess. Stjórn verðbréfaeftirlitsins samþykkti regluna með þremur atkvæðum gegn tveimur en Mary Jo White, stjórnarformaður eftirlitsins, hefur verið undir miklum þrýstingi frá stéttarfélögum og hópi Demókrata um að innleiða regluna. White og tveir Demókratar í stjórninni samþykktu innleiðingu reglunnar.
Tveir fulltrúar Repúblikana í stjórninni lögðust gegn breytingunum. Þeir telja regluna þjóna þeim tilgangi einum að gera lítið úr forstjórum fyrirtækja og telja upplýsingar ekki gagnast fjárfestum að nokkru leyti. Demókratarnir telja aftur á móti að upplýsingarnar gagnist hluthöfum við að ákvarða laun forstjóra. Fréttastofa Bloomberg greinir frá í dag. Í umfjöllun Bloomberg eru þessar nýju reglur sagðar færa nýtt vopn í hendur þeirra sem berjast gegn aukinni misskiptingu tekna.
Reglubreytingarnar taka gildi í ársbyrjun 2017. Frá þeim tíma munu bandarísk fyrirtæki þurfa að upplýsa um meðallaun starfsmanna að forstjóranum undanskildum, laun forstjóra auk hlutfalls launa hans af meðallaunum starfsfólks.
Fram kemur í umfjöllun Bloomberg að meðallaun forstjóra 350 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna jukust um 997 prósent frá 1978 til 2014. Á sama tímabili jukust laun almennra starfsmanna um 10,9 prósent. Árið 1978 voru laun æðstu stjórnenda fyritækja um 30 sinnum hærri en dæmigerðs starfsmanns, en voru í fyrra um 300 sinnum hærri.