Framtakssjóðurinn Levine Leichtman Capital Partners LLC hefur keypt meirihluta hlutafjár í Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi og hefur félagið fengið nýjan forstjóra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem barst fjölmiðlum fyrr í dag.
Levine Leichtman er bandarískur sjóður sem einbeitir sér að fyrirtækjum í miðmarkaðsstærð. Sjóðurinn var stofnaður fyrir 37 árum síðan og starfar bæði vestanhafs og í Evrópu. Eignir í stýringu sjóðsins nema nú um 7,8 milljörðum Bandaríkjadala, sem jafngildir tæpri billjón króna.
Nýr forstjóri
Samkvæmt fréttatilkynningu Creditinfo mun sjóðurinn styðja við áframhaldandi vöxt og starfsemi félagsins á alþjóðavettvangi. Paul Randall, sem hóf störf hjá Creditinfo árið 2007, er nýráðinn forstjóri Creditinfo Group og kemur til með að vinna náið með Reyni Grétarssyni, stofnanda félagsins, sem heldur sæti í stjórn þess og er annar stærsti hluthafinn.
Creditinfo rekur núna yfir 30 útibú um heim allan, en sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, auk ráðgjafar tengdri áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja. Fyrirtækið segist hafa boðið gögn, áhættustýringu og lausnir á sviði útlána til nokkurra stærstu lánveitenda, ríkisstjórna og seðlabanka heims áratugum saman og þannig stuðlað að ábyrgri þátttöku á fjármálamörkuðum.