Nokkrar sviptingar urðu á eignastöðu Seðlabanka Íslands erlendis á fyrstu sex mánuðum ársins, en erlendar bankainnstæður bankans jukust um 224 milljarða króna, úr 169,4 milljörðum í lok desember upp í 394 milljarða í lok júní.
Að sama skapi hafa útistandandi eignir bankans í erlendum verðbréfum og öðrum eignum sem teljast til gjaldeyrisforða bankans dregist mikið saman, eða úr 648 milljörðum niður í 384 milljarða, samkvæmt árshlutauppgjöri bankans sem birt var í dag.
Heilt yfir drógust eignir Seðlabankans saman um 44 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og námu þær 919,6 milljörðum króna að öllu meðtöldu í lok júnímánaðar.
Gjaldeyrisforði bankans nam 865,6 milljörðum á þeim tíma, en hann samanstendur aðallega „af eign Seðlabankans í góðum erlendum verðbréfum og fé á reikningum í traustum bönkum erlendis, einkum í útbreiddustu gjaldmiðlunum, svo sem Bandaríkjadal, evru, pundum og jeni,“ eins og segir á vef Seðlabankans.
Svo er gull einnig oftast á bilinu 1-2 prósent gjaldeyrisvaraforðans. Í lok júní átti Seðlabankinn rúma 15,4 milljarða í gulli, og hafði virði gulleignar bankans aukist um rúmar 200 milljónir króna frá áramótum. Gullstangir bankans eru um 160 talsins og hafa þær verið geymdar á góðum stað erlendis í um 80 ár.