Starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa áhuga á því að semja um styttri vinnuviku í komandi kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Vel komi til greina að krefjast þess að hver vinnudagur verði styttur um hálftíma, en samkvæmt gildandi kjarasamningi er hinn almenni dagvinnutími frá klukkan 9 til 17. Þetta segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), í Morgunblaðinu í dag.
Friðbert bendir á að margt ungt fólk, með heimili og börn, starfi nú hjá bönkum landsins og því sé rétt að aðlaga vinnutímann að heimilislífinu. Mikil umræða hafi sprottið upp um málið á fundi trúnaðarmanna og forsvarsmanna aðildarfélaga SSF fyrir áramót. Í Morgunblaðinu segir: "Voru fundarmenn almennt sammála um mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna. Hann nefnir jafnframt að brýnt sé að setja ákveðinn ramma utan um fastlaunasamninga, svo sem með því að setja ákveðið hámark á tíma unna í yfirvinnu og láta þá eiga við um virka daga "þannig að ekki sé verið að þvinga fólk til að vinna um helgar eða á kvöldin og um nætur".Kröfugerð hefur ekki verið mótuð fyrir viðræðurnar en Friðbert segir að helst hafi verið rætt um að fara svokallaða blandaða leið í launahækkunum, þ.e. bæði krónutölu- og prósentuhækkanir. Ekki sé tímabært að nefna neinar tölur í því sambandi."
Launin 50 prósent yfir meðaltali
Samkvæmt nýjustu launakönnun Hagstofu Íslands eru regluleg laun fullvinnandi einstaklinga hæst í fjármálageiranum. Árið 2013 voru þau 653 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Þau höfðu þá hækkað um 5,7 prósent milli ára. Regluleg mánaðarlaun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 436 þúsund krónur sama ár.
Það þýðir að fólk í fjármálageiranum var með 50 prósent hærri laun en meðaltalslaunamaðurinn á íslenskum vinnumarkaði árið 2013. Þó er vert að taka fram að launadreifing var mest innan þessa geira.