Ný óverðtryggð húsnæðislán banka til heimila landsins námu 135,5 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2021. Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hérlendis í mars í fyrra, þegar vextir tóku að hríðarlækka sem leiddu til stóraukinnar lántöku til húsnæðiskaupa, hafa heimili landsins tekið 495,8 milljarða króna í ný óverðtryggð lán hjá Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum.
Það er rúmlega 98 milljörðum krónum meira en heimili landsins tóku í óverðtryggð húsnæðislán hjá bönkunum þremur frá byrjun árs 2013 og til loka febrúar 2020, eða á sjö árum og tveimur mánuðum. Á þeim tíma tóku heimilin alls 397,2 milljarða króna í óverðtryggð lán til að kaupa sér húsnæði.
Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum frá Seðlabanka Íslands um bankakerfið.
Frá mars í fyrra og út apríl í ár hafa útlán verðtryggðra húsnæðislána, að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum, verið neikvæð um næstum 80 milljarða króna.
Mesta hækkun á verði síðan 2007
Þessi útlánaaukning á rætur sínar að rekja til mikillar lækkunar á stýrivöxtum, en þeir fóru lægst í 0,75 prósent áður en þeir voru hækkaðir í fyrsta sinn frá árinu 2018 fyrr í þessum mánuði upp í eitt prósent. Fyrir vikið hafa boðist óverðtryggð lán á kjörum sem aldrei hafa sést áður á Íslandi. Lægstu breytilegu óverðtryggðu vextir sem í boði eru á grunnláni – fyrir 70 prósent af virði keyptrar eignar – eru nú 3,3 prósent hjá Landsbankanum. Í árferði þar sem verðbólga mælist 4,6 prósent blasir við að það eru afar góð kjör í íslensku lánasamhengi, sérstaklega í samanburði við verðtryggð lán, þar sem lánið hækkar ef verðbólga er til staðar.
Hægari hækkun og hærri vextir
Bankarnir reikna með að húsnæðisverð haldi áfram að hækka í nánustu framtíð. Í nýrri þjóðhagsspá Landsbanka Íslands er gert ráð fyrir að það hækki um 10,5 prósent á þessu ári en að það hægi svo á hækkunataktinum á næstu árum. Bankinn reiknar sömuleiðis með því að vextir muni hækka nokkuð skarpt á næstu árum og verði komnir upp í 2,75 prósent í lok árs 2023.
Í þjóðhagsspá Íslandsbanka er gert ráð fyrir því að húsnæðisverð hækki um 11,3 prósent á árinu 2021 og að stýrivextir verði komnir yfir þrjú prósent í árslok 2023.