Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banka, lánuðu samtals 55,1 milljarð króna til fyrirtækja, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það er meira en þeir lánuðu samanlagt til slíkra á árunum 2020 og 2021. Á því 24 mánaða tímabili lánuðu bankarnir samtals 52 milljarða króna til atvinnufyrirtækja landsins.
Þetta má lesa út úr nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið.
Þar kemur fram að útlán til atvinnufyrirtækja að frádregnum upp- og umframgreiðslum hafi verið 27,9 milljarðar króna í mars. Það eru mestu útlán sem bankarnir þrír hafa staðið fyrir innan eins mánaðar síðan í ágúst 2018. Til samanburðar má nefna að allt árið 2020 lánuðu kerfislega mikilvægir bankar fyrirtækjum landsins 7,8 milljarða króna nettó. Útlánin á fyrsta ársfjórðungi 2022 eru því næstum 260 prósent meiri en allt árið 2020.
Til samanburðar var nettó heildarumfang nýrra útlána 105 milljarðar króna árið 2019 og tæplega 209 milljarðar króna árið 2018.
Mest til fyrirtækja í verslun
Langmesta aukningin í mars var til fyrirtækja sem stunda verslun, en þau fengu 9,3 milljarða króna að láni. Fyrirtæki í þeim flokki hafa ekki fengið meira lánað í einum mánuði síðan í ágúst 2018.
Þá fengu fyrirtæki í þjónustustarfsemi alls 6,9 milljarða króna lánaða í marsmánuði og samtals 18,3 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Aukin útlán til fyrirtækja í verslun og þjónustu eru merki þess að ferðaþjónusta sé að taka aftur við sér og þurfi á auknu lánsfé til að trekkja sig í gang eftir langvinna lægð vegna kórónuveirufaraldrinum.
Hafa lánað nánast það sama í byggingarstarfsemi og allt árið 2019
Útlán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa líka tekið nokkuð vel við sér á síðustu mánuðum. Samtals hafa verið lánaðir 15,1 milljarðar króna inn í þann geira frá byrjun nóvember 2021 og út mars síðastliðinn. Þar af voru 8,5 milljarðar króna lánaðir í febrúar og mars.
Á árunum 2020 og 2021 voru útlánin til geirans, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, hins vegar neikvæð um 29,7 milljarða króna. Því er um mikinn viðsnúning að ræða.
Sá viðsnúningur er nauðsynlegur í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir á húsnæðismarkaði í dag. Í síðustu birtu mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kom fram að framboð íbúða til sölu hafi verið undir eitt þúsund á landinu öll í byrjun mars. Það er þó ofmat á framboðinu því um þriðjungur íbúðanna voru þegar komnar í fjármögnunarferli og því búið að samþykkja tilboð í þær. Til samanburðar fór það í fyrsta sinn niður fyrir tvö þúsund íbúðir í mars í fyrra.
Sú mikla eftirspurn sem verið hefur eftir íbúðum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hefur hækkað verð þeirra gríðarlega. Síðasta mælda árshækkun er um 22 prósent.