Útistandandi bankalán vegna byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar hjá íslensku bönkunum námu 155 milljörðum króna í september, en þau hafa minnkað um 27 milljarða króna frá byrjun síðasta árs.
Bankarnir drógu allir úr nýjum lánum í byggingarstarfsemi á haustmánuðum 2019, en síðan þá hefur virði þeirra að frádregnum uppgreiðslum á gömlum lánum verið neikvætt átta ársfjórðunga í röð. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans um stöðu bankakerfisins.
Minnkunin mest hjá Landsbankanum
Landsbankinn, Íslandsbanki og Kvika greina allir frá lánastöðu sinni til byggingarstarfsemi í ársreikningum þeirra, en samkvæmt því var hún 20 milljörðum minni í lok síðasta árs. Þar er minnkunin mest hjá Landsbankanum, en virði útlána í flokknum þar minnkaði um 16 milljarða króna á milli ára. Minnkunin var aftur á móti nokkuð jöfn hjá Íslandsbanka og Kviku, en báðir bankarnir minnkuðu útlánin sín til byggingarframkvæmda um 2 milljarða króna hvor.
Sams konar flokkun er ekki að finna í ársreikningum Arion banka, en þar eru útlán til fasteignafélaga og byggingarstarfsemi sett í einn flokk. Virði útlána í þessum flokki minnkaði líka á síðasta ári um tvo milljarða.
Drógu úr nýjum útlánum 2019
Ef ný útlán bankanna að frádregnum uppgreiðslum til byggingarstarfsemi eru skoðuð eftir ársfjórðungum sést að mikil breyting átti sér stað á þriðja fjórðungi ársins 2019. Þetta má sjá á myndinni hér að ofan, en samkvæmt henni hafa ný útlán hjá bönkunum nú verið neikvæð í átta ársfjórðunga samfleytt.
Í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku sagði Landsbankinn að mikil sala íbúða og margfalt meiri eftirspurn fyrstu kaupenda gerði það að verkum að verktakar gátu selt feliri íbúðir og þannig losað um fé til að halda áfram uppbyggingu, sem bankinn hafi stutt með lánveitingum. Bankinn sagðist hafa þjónað þessum geira vel og muni áfram lána traustum verktökum í góð byggingarverkefni. Sömuleiðis sögðust Íslandsbanki og Arion banki vera jákvæð í garð slíkrar lánveitingar.