Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banka, lánuðu samtals 80,5 milljarða króna til fyrirtækja, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Það er svipað og þeir lánuðu samanlagt til fyrirtækja frá ágúst 2019 og fram til loka árs 2021, eða á 29 mánaða tímabili.
Á mars og apríl einum saman lánuðu bankarnir þrír 53,2 milljarða króna til atvinnufyrirtækja sem er meira en þeir lánuðu slíkum samanlagt á tveggja ára tímabili, frá byrjun árs 2020 og til síðustu áramóta, en þá voru ný útlán 52 milljarðar króna.
Þetta má lesa út úr nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið.
Útlán til atvinnufyrirtækja að frádregnum upp- og umframgreiðslum voru 25,4 milljarðar króna í apríl, sem er 2,5 milljörðum krónum minna en lánað var í mars. Sá mánuður var þó stærsti útlánamánuður bankana þriggja til fyrirtækja síðan í ágúst 2018.
Mesta aukningin í apríl var til fasteignafélaga, sem fengu alls um 7,1 milljarð króna í ný útlán nettó. Fyrirtæki í verslu fengu 5,3 milljarða króna og í sjávarútvegi rúmlega 4,9 milljarða króna að láni.
Lánað til byggingafyrirtækja sem þurfa að byggja 35 þúsund íbúðir á áratug
Útlán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa líka tekið nokkuð vel við sér á síðustu mánuðum. Samtals hafa verið lánaðir 18,2 milljarðar króna inn í þann geira frá byrjun nóvember 2021 og út mars síðastliðinn. Þar af voru 11,6 milljarðar króna lánaðir í febrúar, mars og apríl.
Til að setja þá tölu í samhengi þá lánuðu kerfislega mikilvægu bankarnir þrír samtals 16,5 milljarða króna til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð allt árið 2019, síðasta heila árið fyrir kórónuveirufaraldur.
Sá viðsnúningur er nauðsynlegur í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir á húsnæðismarkaði í dag vegna framboðsskorts og gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði.
Í skýrslu sem starfshópur stjórnvalda um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti á opnum kynningarfundi í síðustu viku kom fram að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun. Til viðbótar þarf að mæta uppsafnaðri þörf sem er metin á um 4.500 íbúðir. Bráðabirgðamat hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að það þurfti að byggja 3.500 til 4.000 íbúðir á ári næstu fimm til tíu árin. Hún áætlar að 2.783 nýjar íbúðir komi á markaðinn á árinu 2022 og 3.098 íbúðir á árinu 2023. Í skýrslunni segir: „Raungerist þær áætlanir er ljóst að ekki verður byggt í takt við þörf og líkur til þess að uppsöfnuð íbúðaþörf muni aukast sem leitt getur af sér neikvæða þróun og áframhaldandi óstöðugleika á húsnæðismarkaði.“