Ný útlán banka, umfram uppgreiðslur og umframgreiðslur, til atvinnufyrirtækja voru 42,7 milljarðar króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Allt árið í fyrra lánuðu kerfislega mikilvægir bankar á Íslandi samtal fyrirtækjum landsins 7,8 milljarða króna nettó. Ný útlán á fyrstu fimm mánuðum ársins 2021 voru því rúmlega fimm sinnum hærri upphæð en lánuð var nettó til fyrirtækja allt árið í fyrra.
Þetta má lesa út úr nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu íslenska bankakerfisins.
Til samanburðar var nettó heildarumfang nýrra útlána 105 milljarðar króna árið 2019 og tæplega 209 milljarðar króna árið 2018, þegar bankarnir lánuðu fyrirtækjum landsins 27 sinnum meira en í fyrra.
Raunar teygir þessi viðsnúningur í lánum til fyrirtækja sig aðeins aftar, en til desember 2020. Þá lánuðum bankarnir nettó sjö milljarða króna til atvinnufyrirtækja líka sem þýðir að hina ellefu mánuði ársins 2020 lánuðum þeir fyrirtækjunum 800 milljónir króna umfram það sem þau greiddu upp.
Mikill samdráttur í fyrra
Mikill vöxtur var í útlánum innlánsstofnana landsins á uppgangstímum síðustu ára. Um er að ræða, að uppistöðu, útlán sem Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki og Kvika banki veita.
Síðan þá hefur verið umtalsverður samdráttur í nýjum útlánum. Árið 2019 voru þau 104,8 milljarðar króna og nánast helminguðust á milli ára.
Í fyrra varð síðan orðið eðlisbreyting og bankarnir greinilega haldið að sér höndum í útlánum í þeirri heimskreppu sem nú gengur yfir. Vísbendingar eru um að þetta ástand sé að lagast.
Bankarnir áttu að leika lykilhlutverk í viðbrögðum
Ein helsta aðgerðin sem ríkisstjórnin kynnti til leiks í mars var að veita fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Þetta átti að gera þannig að ríkið semdi við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarfyrirgreiðslu til fyrirtækja, í formi brúarlána, sem orðið hefðu fyrir verulegu tekjutapi vegna yfirstandandi aðstæðna. Seðlabankinn myndi þannig veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán upp að um 70 milljarða króna.
Aðalviðskiptabankar fyrirtækja áttu að veita þessa fyrirgreiðslu og aðgerðin var í heild metin á um 80 milljarða króna að teknu tilliti til aukinnar útlánagetu banka vegna lækkunar á bankaskatti, sem átti að aukast um tæplega 11 milljarða króna. Ríkið reiknaði sín áhrif af þessu á 35 milljarða króna.
þetta úrræði hefur ekki verið nýtt sem neinu nemur. Alls hafa verið veitt átta brúarlán fyrir samtals 2,7 milljarða króna.
Svokölluð stuðningslán, einnig kölluð sérstök lán til lítilla fyrirtækja, voru kynnt í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar númer tvö, sem kynntur var til leiks í apríl 2020. Til að teljast til slíkra fyrirtækja þurfti að vera með tekjur undir 500 milljónum króna á ári. Lánin, sem njóta 100 prósent ríkisábyrgðar, standa einungis fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli til boða, sem er sama skilyrði og gildir fyrir hin svokölluðu brúarlán til stærri fyrirtækja sem kynnt voru til leiks mánuði áður.
Lánin til fyrirtækjanna átti að verða hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau nema að hámarki sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna átti að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda.
Enn sem komið er hafa 970 aðilar fengið alls 9,6 milljarða króna í stuðningslán.