Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segist átta sig á því að bankabónusar séu umdeildir. Hans skoðun sé hins vegar sú að það megi réttlæta þá, sérstaklega á ákveðnum sviðum. Þetta kemur fram í viðtali við Höskuld í Viðskiptablaðinu í dag.
Höskuldur segir þar að bónusar geti haft jákvæð áhrif í fjármálastarfsemi, eins og annarri starfsemi. „Ég er hins vegar sammála því að menn þurfi að fara ákaflega varlega í þessu og þetta þarf allt að vera í réttum hlutföllum. Einnig er rétt að horfa til þess að í dag gilda mjög strangar reglur um svona kerfi í fjármálafyrirtækja, ólíkt því sem áður var.“
Þurfum að borga bónusa vegna þess að aðrir gera það
Höskuldur er þeirrar skoðunar að mestu máli skipti að hér á landi séu sambærileg starfsskilyrði og aðrir bankar sem starfi samanburðarlöndum. „Það er þannig á þessum íslensku bankamarkaði að erlendir bankar eru með um 40% af fyrirtækjamarkaðnum og eru um þessar mundir tiltölulega atkvæðamiklir í nýjum lánveitingum, sérstaklega til útgerðarinnar. Þeir hafa áhuga á því sem kallað er „global collaterals“ eins og til dæmis nýjum skipum sem hægt er að fara með annað ef illa tekst til. Þeir hafa kannski minni áhuga á öðru sem íslensku bankarnir sinna þá. Það að geta greitt bónusa er hluti af því að hafa hlutina hér á landi eins og þeir eru annars staðar, en við þurfum að fara varlega.“
Telur bann við bónusum geta þýtt verri kjör
Í viðtalinu við Viðskiptablaðið segir Höskuldur að óskynsamlegt sé að banna bónusa, eins og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur til að mynda lagt fram. Þeir séu eitt af mörgu sem hafi áhrif á samkeppnishæfni íslenskra banka. Allar reglur sem rýrir samkeppnishæfni íslenskra banka dragi úr möguleikum þeirra við að bjóða viðskiptavinum betri kjör. „Við erum bæði í samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki og svo erum við í samkeppni um fólk við innlend fyrirtæki sem ekki búa við takmarkanir hvað þetta varðar.“
Bónusar í sviðsljósinu
Bankabónusar, eða kaupaukakerfi innan fjármálageirans, hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri í tengslum við framlagt frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt núgildandi lögum mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra.
Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 900 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á síðasta ári. Um hundrað starfsmenn fá slíkar greiðslur hjá hvorum banka fyrir sig. Arion banki gjaldfærði 542 milljónir króna í fyrra sem var 48 milljónum króna meira en árið á undan. Íslandsbanki gjaldfærði 358 milljónir króna í fyrra, eða 87 milljónum krónum meira en árið 2013.
Landsbankinn, sem er að mestu í eigu ríkisins, er ekki með árangurstengdar greiðslur. Um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fengu hins vegar 0,78 prósent hlut í bankanum gefins árið 2013 og fá greiddan arð vegna hans.
Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem skilað var inn sem umsögn um frumvarpið, kom hins vegar fram að það telji að það yrði að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða tvöfalt hærri bónusgreiðslur en núverandi reglur kveða á um og þær megi því vera allt að 50 prósent af föstum árslaunum starfsmann. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði leyft aðgreiða hlutfallslega enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.
Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu einnig inn umsögn um frumvarpið þar sem fram kom að takmörkun á bónusgreiðslum væri íþyngjandi að þeirra mati. Samtökin lögðu til að evrópskur lagarammi yrði fullnýttur og fjármálafyrirtækjum gert kleift að greiða starfsmönnum sínum á bilinu 100 til 200 prósenta af árslaunum í kaupauka.
Framsókn á móti
Annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur sett sig skarpt upp á móti auknum bónusgreiðslum til bankastarfsmanna. Á flokksþingi hans í apríl var samþykkt tillaga Karls Garðarssonar, þingmanns flokksins, um að bónusar í bankakerfinu verði alfarið bannaðir. Í ályktunum flokksþingsins segir: „Framsóknarflokkurinn er andvígur heimildum til kaupauka í fjármálafyrirtækjum.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði gagnrýndi umræðu um hækkun á bankabónusum harðlega í ræðu sinni á ársfundi Samtaka atvinnulífsins þann 16. apríl síðastliðinn. „Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almennings.“