Anthony Jenkins, sem tók við sem forstjóri hins breska Barclays-banka fyrir um þremur árum síðan, hefur verið látinn fara frá bankanum. Jenkins tók við í kjölfar LIBOR-hneykslisins, þar sem uppvíst var að Barclays og nokkrir aðrir alþjóðlegir bankar hefðu með kerfisbundnum tilraunum skekkt uppgefna millibankavexti á árunum 2005-2009 með því að veita rangar upplýsingar um lántökukostnað sinn. Við starfi Jenkins tekur tímabundið John McFarlane, stjórnarformaður Barclays, en leit að eftirmanni stendur þegar yfir.
Í yfirlýsingu sem Barclays sendi frá sér vegna þess er haft eftir Sir Michael Rake, varaformanni stjórnar bankans, að Jenkins hefði lagt mikið af mörkum á undanförnum árum en að það væri mat stjórnarinnar að þörf væri á annars konar hæfileikum til að takast á við þær áskoranir sem framundan væru á fjármálamarkaði.
Mikið brimrót hefur verið hjá Barclays bankanum undanfarin ár. Í maí síðastliðnum var hann var til að mynda sektaður af hinum ýmsu stofnunum og eftirlitsaðilum í Bandaríkjunum og í Bretlandi um 1,5 milljarða sterlingspunda, eða tæplega 312 milljarða íslenskra króna, vegna LIBOR-hneykslisins. Þar af var bankanum gert að greiða breska fjármálaeftirlitinu 284 milljónir sterlingspunda, sem er hæsta sektarupphæð sem stofnunin hefur lagt á fjármálastofnun fyrr og síðar.
Hagnaður bankans á árinu 2014 2,26 milljarðar punda, um 440 milljarðar króna. Hann lækkaði hins vegar um 21 prósent á milli ára. Stjórn bankans ákvað samt sem áður að auka fjármunina sem voru til skiptanna í bónusgreiðslur um 22 prósent, og nam upphæðin sem starfsmenn gátu fengið í bónusgreiðslur, ef markmið nást, um 1,86 milljörðum punda, eða sem nemur 372 milljörðum króna.
Jenkins sjálfur fékk 1,1 milljónir punda í bónusgreiðslu vegna hagnaðar bankans í fyrra, eða sem nemur 220 milljónum króna. Heildarlaun hans á árinu 2014 námu 5,5 milljónum punda eða sem nemur 1,2 milljörðum króna.