Bankastjóri Íslandsbanka, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn hafa farið fram á kaupauka í tengslum við nauðasamninga og mögulega sölu bankans. Vilja stjórnendurnir fá allt að 1 prósenta hlut í bankanum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, sem greinir frá þessu í Viðskipta-Mogganum í dag.
Hlutur stjórnendanna gæti numið tveimur milljörðum króna sé miðað við bókfært eigið fé í árslok 2014. Fyrirmynd tillögunnar er sótt í samkomulag sem var gert árið 2009 og tryggði starfsfólki í Landsbankanum 1 prósenta hlut í bankanum. Ekki er gert ráð fyrir því í tillögu stjórnenda Íslandsbanka að almennir starfsmenn fái hlutdeild.
Morgunblaðið segir að stjórnendur hafi lagt hugmyndir sínar fyrir kröfuhafa bankans sem halda á langstærstu eignarhlut. Ekki hefur náðst samkomulag um kaupauka.
Stefnt á sölu
Stefnt er að sölu Íslandsbanka á næstunni. Í síðustu viku gerðu Íslandsbanki og Glitnir rammasamkomulag um samstarf svo að slitameðferð Glitnis nái fram að ganga. Rammasamkomulagið kveður meðal annars á um að sala á Íslandsbanka til íslenskra fjárfesta verður takmörkuð.
Í tilkynningu til Kauphallar eru listaðar þær aðgerðir sem ráðist verður í. Þær eru hinar sömu og áður hefur verið greint frá, það eru tillögurnar sem kröfuhafar Glitnis lögðu fyrir stýrniefnd stjórnvalda um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum. Í þeim tillögum var sérstaklega talað um aðgerðir sem ráðist yrði í fyrir sölu Íslandsbanka til annarra aðila, en hann er í dag að stærstum hluta í eigu slitabús Glitnis.