Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að það þurfi að bregðast við gagnrýni frá háttsettum stjórnmálamönnum um fyrirhugaða nýbyggingu höfuðstöðva bankans í miðbæ Reykjavíkur. Til greina komi jafnvel að hætt verði við bygginguna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Kjarninn sagði frá því í gær að bankaráð Landsbankans hefði ákveðið að fresta hönnunarsamkeppni um bygginguna við Austurhöfn. Samkeppnin átti að hefjast síðar í ágúst. Ekki liggur fyrir hvenær samkeppnin verður hafnin á ný.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn tilkynnti í fyrri hluta júlí að nýjar 14.500 fermetra höfuðstöðvar bankans rísi við hlið Hörpu í Austurhöfn í Reykjavík. Byggingaráformin mættu harðri gagnrýni, meðal annars frá stjórnarþingmönnum og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Hann sagði það undarlegt að banki í almanneigu ætli að fara gegn vilja eigandans í málinu. Landsbankinn er að nær öllu leyti í eigu ríkisins.
Landsbankinn hefur sagt að með núvirtur ávinningur af því að flytja bankann í nýtt húsnæði við Austurbakka sé metinn á um 4,3 milljarða króna, en starfsemi bankans er nú rekin í mörgum byggingum. Þá hafa forsvarsmenn bankans sagt lóðaverðið hagstætt og stærð lóðarinnar hentugt miðað við þarfir bankans.