Bankasýsla ríkisins segist fagna því að Fjármálaeftirlit Seðlabankans sé að skoða tiltekna þætti í tengslum við útboð og starfshætti söluráðgjafa í sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka, enda hafi Bankasýslan sjálf engar heimildir til eftirgrennslan eða athugunar á þeim þætti söluferlisins.
Þetta kemur fram í bréfi sem Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins hefur sent á Fjármálaeftirlitið, en það er birt á vef stofnunarinnar í dag. Stundin sagði frá því í gær að skoðun á tilteknum þáttum tengdum sölunni hefði þegar hafist hjá FME.
„Mikilvægi þess að skapa traust og tiltrú á sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka verður seint ofmetið. Bankasýsla ríkisins býður fram alla sína aðstoð og upplýsingar sem varpað geta nánari ljósi á útboðið,“ segir í bréfi Jóns Gunnars í dag.
Þar segir einnig að „mikil umfjöllun“ hafi verið um útboðið í fjölmiðlum á síðustu vikum og komið hafi fram „fréttir varðandi hvort kaupendur hafi uppfyllt lagaskilyrði um að teljast hæfur fjárfestir í útboðinu sem og mögulegum hagsmunaárekstrum hjá söluráðgjöfum, t.d. vegna kaupa starfsmanna eða tengdra aðila á eignarhlutum“.
Arðgreiðsla útskýri verðlækkun bréfa fyrir útboð
Einnig er í bréfinu vakin athygli á athugasemdum Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata, sem hefur velt því upp hvort möguleg markaðsmisnotkun hafi átt sér stað í aðdraganda útboð, með vísan til þess að verð á hlutum í Íslandsbanka hafi lækkað nokkuð í aðdragandanum.
Bankasýslan vekur þó, vegna athugasemda Björns Levís, sérstaka athygli á því að á hluthafafundi Íslandsbanka sem fram fór 17. mars hafi verið ákveðin arðgreiðsla sem nam 5,95 kr. á hlut. „Arðleysisdagur var þann 18. mars sem skýrir að langmestu þá verðlækkun sem varð fyrir útboðið þann 22. mars,“ segir í bréfi forstjóra Bankasýslunnar.