„Við erum undir þessar reglur sett í Bankasýslunni og þess vegna teljum við okkur ekki fært að birta þetta með þeim hætti sem að krafa stendur til. En við höfum hins vegar bent á það fyrir stjórnvöld að við gætum í næsta umgangi bara sett þetta sem skilyrði í útboðinu að það yrði tilkynnt eða upplýst um kaupendur og kaupin eftir að útboði lýkur.“
Þetta segir Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, í þætti Dagmála á mbl.is sem birtur var í morgun þegar hann var spurður um hvort það væri ekki hægt að birta lista yfir þá 209 aðila sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn með 2,25 milljarða króna afslætti.
Lárus sagði að Bankasýslan hafi fengið lögfræðiálit um þetta viðfangsefni og álit frá Íslandsbanka sjálfum. Jafnframt hafi verið leitað álits hjá erlendum ráðgjöfum stofnunarinnar. „Það er einhlítt svar í sjálfu sér, það eru allar líkur á því að þetta falli undir bankaleynd og jafnframt er þetta óþekkt í þessum erlenda praxís að menn upplýsi um kaupendur og hvað keypt er.“
Bjarni hefur beðið um listann
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hann hafi beðið Bankasýsluna um að afhenda lista yfir þá sem keyptu. Að hans hálfu sé ekkert því til fyrirstöðu að listinn verði birtur. „Bara ef lög stæðu í vegi fyrir því. Ég er að vona að niðurstaðan verði sú að við getum bara birt þetta.“
Tugir minni fjárfesta fengu að kaupa fyrir lágar upphæðir
Harðlega hefur verið gagnrýnt að litlum aðilum sem uppfylla skilyrði þess að vera skilgreindir sem fagfjárfestar hafi fengið að kaupa með afslætti í lokuðu útboði. Alls 24 þeirra sem tóku þátt fengu að kaupa hlut fyrir tíu milljónir króna eða minna, 35 keyptu fyrir tíu til 30 milljónir króna og 20 keyptu fyrir 30 til 50 milljónir króna. Því liggur fyrir 79 aðilar, rúmlega helmingur allra þátttakenda, keypti fyrir 50 milljónir króna eða minna. Gagnrýnt hefur verið, meðal annars á þingi, að nauðsynlegt hafi verið að veita þessum aðilum aðkomu að þessu útboði í ljósi þess að margföld umframeftirspurn var hjá stórum fjárfestum á borð við lífeyrissjóði og litlu fjárfestarnir voru að kaupa fyrir upphæðir sem séu þess eðlis að þeir hefðu einfaldlega átt að kaupa hluti á eftirmarkaði, og á markaðsverði.
Í kynningu Bankasýslunnar fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál síðastliðinn föstudag var há hlutdeild einkafjárfesta rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka, sem fór fram í fyrrasumar en þá seldi ríkið 35 prósent hlut í bankanum.
Frávik sem sumir kalla afslátt
Lárus sagði í Dagmálum að það væri söluráðgjafa Bankasýslunnar að ganga úr skugga um að þeir aðilar sem þeir komu með inn í útboðið uppfylltu þau skilyrði sem lög kalla á til að flokkast sem fagfjárfestar. Hann sagði að það að litlir fjárfesta hafi fengið að njóta „þessa fráviks, sem sumir kalla afslátt“, hafi ekki spila stóra rullu í heildarsölunni á bankanum en alls seldi Bankasýslan 22,5 prósent hlut fyrir 52,65 milljarða króna.
Í áðurnefndri kynningu Bankasýslunnar fyrir ráðherranefndinni kom fram að fjöldi tilboða sem var tekið hafi verið 209. Þar af keyptu innlendir fjárfestar 85 prósent af hlutnum fyrir samtals 44,8 milljarða króna, en erlendir aðilar 15 prósent fyrir 7,9 milljarða króna.
Fjöldi innlendra fjárfesta sem fékk að kaupa voru 190 talsins. Þar af fengu 23 lífeyrissjóðir að kaupa 37,1 prósent þess sem selt var á 19,5 milljarðar króna. Alls 140 íslenskir einkafjárfestar fengu að kaupa næst mest, alls 30,6 prósent af því sem var selt á 16,1 milljarð króna. Alls 13 verðbréfasjóðir fengu að kaupa fyrir 5,6 milljarða króna og „aðrir fjárfestar“ frá Íslandi fyrir 3,5 milljarða króna.
Alls 15 fjárfestar keyptu fyrir meira en einn milljarð króna og sex keyptu fyrir á bilinu 500 til 1.000 milljónir króna.