Samkvæmt nýjum frönskum lögum mega matvöruverslanir ekki lengur henda mat. Matvörur, sem komnar eru fram yfir síðasta söludag, verða annað hvort gefnar til góðgerðar- og hjálparsamtaka eða þá notaðar í dýrafóður eða sem jarðvegsbætir. Þessi lagabreyting er algjörlega einum manni að þakka sem fór í stríð gegn stórmörkuðunum og hafði betur. Hann lætur ekki staðar numið og ætlar sér stóra hluti um allan heim.
Sóun á matvælum
Arash Derambarsh situr í borgarráði Parísar. Fyrir nokkru setti hann af stað átak gegn sóun á matvælum. Honum blöskraði hversu miklum mat stórmarkaðirnir hentu á sama tíma og margir borgarbúar liðu skort og áttu hreinlega ekki fyrir mat. Tæplega 70% af öllu fersku káli hefur verið hent, 40% af öllum eplum fóru vanalega í tunnuna, varla helmingur af öllu brauðmeti var keypt – afgangnum hent á haugana.
Þetta er raunveruleikinn í flestum stórmörkuðum hins vestræna heims. Nýtingin er skelfileg. Reyndar er ekki bara við stjórnendur fyrirtækjanna að sakast. Venjulegir neytendur er sennilega verstir - um helmingur vörukörfunnar endar vanalega í ruslinu. Hver Frakki er talinn henda um 20-30 kíló af ætilegum mati árlega. Verðmætin í þessum mat, sem hent er í ruslið, eru metin í hundruðum milljarða.
Í byrjun átaksins fór hinn 35 ára gamli Derambarsh um og ræddi við kaupmenn í nágrenni sínu; samdi við þá um að gefa heimilislausum, einstæðum mæðrum, fátækum börnum, atvinnulausum og ellilífeyrisþegum mat sem kominn var fram yfir síðasta söludag – fremur en að henda honum. Á hverjum degi kom hann vanalega um 100 manns til hjálpar. Ýmsir stórmarkaðir brugðust hins vegar illa við þessu framtaki hans og neituðu að gefa mat.
Hann gafst þó ekki upp; skrifaði greinar, ræddi við fólk og fjölmiðla, safnaði 200.000 undirskriftum þar sem stjórnvöld voru hvött til þess að setja ný lög og banna hreinlega þessa sóun. Hann afhenti franska þinginu áskorun sem brást fljótt við og nú hafa ný lög tekið gildi sem knýja stórmarkaði til þess að gefa mat í stað þess að henda honum. Matvörur sem ekki er hægt að selja lengur eru afhentar góðgerðarsamtökum sem dreifa þeim síðan til nauðstaddra og fátækra. Þeir sem henda mat eiga von á viðurlögum og sektum. Von stjórnvalda með nýju lögunum er að minnka þessa sóun um helming.
Átak sem breytt gæti heiminum
Arash Derambarsh er hvergi nærri hættur þrátt fyrir þennan mikilvæga áfanga. Samskonar barátta hefur raunar verið í gangi um allan heim, m.a. á Íslandi þar sem ýmsir skólar og samtök hafa hvatt fólk og fyrirtæki til þess að henda ekki mat.
Arash segir það hneyksli að fólk skuli henda mat á meðan fátækt og heimilislaust fólk svelti. Hann er ánægður með viðbrögð franska þingsins og vill að önnur lönd Evrópu fylgi í kjölfarið. Jafnvel heimurinn allur. Hann segir matarpólitík vera mikilvægasta verkefni samtímans:
„Matur er undirstaða lífsins; grundvallarþáttur tilveru okkar. Matur skiptir öllu máli. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera einfaldur hugsjónamaður. En ég fór í stjórnmál til þess að gera gagn og reyna að hjálpa fólki. Kannski er það hallærislegt að vilja hjálpa öðrum, en svona er ég gerður. Ég hef sjálfur verið fátækur og svangur.“
Hann bendir t.d. á að flestir námsmenn þurfi að lifa spart. Þeir borði að jafnaði aðeins eina máltíð á dag og þá vanalega ódýrt fæði eins og pasta eða kartöflur. Nám sér kröfuhörð og mikil vinna, sem krefst mikillar orku og það sé aukið álag að þurfa stöðugt að þurfa örvænta um mat. Af hverju ekki að gefa þessum mikilvæga hópi framtíðarinnar mat – fremur en að henda honum?
Derambarsh horfir nú á heiminn allann og vinnur m.a. með ONE samtökunum, sem berjast gegn sóun á matvælum. Eitt af aldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að binda enda á fátækt í heiminum; fátækt og hungursneyð er stærsta vandamál mannkyns og stöðugt umræðuefni á alþjóðlegum ráðstefnum.
„En lausnin er svo einföld og blasir við: Hættum að henda mat!“
Segir Derambarsh og bendir á að ríflega sjö milljónum tonna af mat sé hent árlega í Frakklandi. 67% af því séu neytendur sjálfir, 15% veitingastaðir og 11% matvöruverslanir. Í Evrópu er árlega hent 89 milljónum tonna og 1,3 milljörðum tonna af mat er hent í heiminum öllum.
Alls ekki ónýtur matur
Þótt matur sé kominn fram yfir síðasta söludag er hann síður en svo ónýtur eða hættulegur. Næringarfræðingar hafa ítrekað það. Fremstu matreiðslumeistarar Frakklands hafa stutt átakið og eldað dýrindis máltíðir úr matvörum sem stórmarkaðirnir hafa sett í ruslið. Sjónvarps- og útvarpsþættir, blaðagreinar og vefsíður hafa verið undirlagðar átakinu um að henda ekki mat. Margir hagfræðingar hafa bent á með tölum og rökum að betri nýting á matvælum sé ekki bara mörgum fjölskyldum og einstaklingum í hag - heldur líka afar brýnt fyrir allt þjóðarbúið.
Margir hafa brugðist við nýju lögunum; þróuð hafa verið ýmiskonar snjallsíma-forrit sem gera fólki kleyft að finna fersk matvæli sem á að fara henda. Nokkrir veitingastaðir auglýsa sig nú sem „hendum engu -nýtum allt“ - sem er í takt við þessa nýju bylgju.
Mikilvægast er samt að almenningur læri að nýta betur matinn sinn sem það kaupir dýrum dómi – til þess að auðga líf sitt og annara í kringum sig.
Hvað með Ísland?
Síðastliðinn vetur lögðu ellefu íslenskir alþingismenn úr öllum flokkum ram þingályktunartillögu um aðgerðir til að draga úr matarsóun. Þar er lagt til að mæla og greina umfang matarsóunar á Íslandi og leggja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr matarsóun.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram, sem oft hefur verið sagt í baráttúnni gegn sóun matvælla að einn þriðji, jafnvel hátt í helmingur þeirra matvæla sem ræktuð eru og framleidd í heiminum endi sem ónýttur úrgangur. Ennfremur segir í greinargerðinni:
„Þessi sóun á sér stað á öllum stigum; á akrinum, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum. Mat er hent vegna þess að hans er ekki neytt fyrir síðasta söludag, hefur skemmst, lítur illa út eða afgangar ekki nýttir svo að dæmi séu tekin. Þegar talað er um matarsóun er miðað við að mat sé hent sem hefði annars getað nýst. Þessi matarsóun er óumhverfisvæn í alla staði því að framleiðsla, flutningur og urðun á matvælum krefst orku, vatns og landnýtingar. Eftirspurn eftir mat í einum heimshluta þrýstir á um aukna landnýtingu hinum megin á hnettinum og gerir það að verkum að stórum landsvæðum er breytt í ræktunarland, oft á kostnað mikilvægra vistkerfa, svo sem regnskóga. Í ljósi þess hversu mikil og neikvæð umhverfisáhrif eru af matvælaframleiðslu er ólíðandi hversu miklu magni af matvælum er hent. Á sama tíma býr milljarður jarðarbúa við hungurmörk en með litlu broti af þeim matvælum sem er hent væri hægt að fæða þá sem svelta. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, „Food Wastage Footprint: Impacts on Natural Resources“, kemur m.a. fram að 28% ræktunarlands í heiminum (1,4 milljarðar hektara) séu nýtt til að rækta mat sem skemmist eða sé sóað og að framleiðsla á mat sem er ekki neytt losi árlega 3,3 milljörðum tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.“