Þótt Svíum finnist fátt skemmtilegra en að syngja saman í góðra vina hópi þarf heldur meira til að gleðin nái alla leið niður í tær. Enda er dans ekkert gamanmál og þá sérstaklega þegar áfengi er haft um hönd. Þrátt fyrir að mörgum finnist reglur um helgihald helst til of strangar á Íslandi má finna sambærilegar reglur í Svíþjóð sem gilda allan ársins hring. Ein þeirra snýst um sérstakt leyfi sem eigendur veitinga- og skemmtistaða þurfa að ná sér í til að fólk megi dansa á staðnum. Á Íslandi er kannski bannað að spila bingó á föstudaginn langa, en í Svíþjóð er bannað að dansa allan ársins hring nema hið opinbera hafi leyft það.
Þessar reglur eru ekki bara úreltar leifar fyrri tíma – heldur má enn finna dæmi þess að þær séu notaðar til að svipta staði vínveitingarleyfi. Dagblaðið Dagens Nyheter birti meðal annars umsögn eftirlitsmanns í borginni Gävle sem hafði skoðað veitingastað þar sem reglurnar virtust brotnar. „Á gólfinu voru milli 50-80 manns sem hreyfðu sig í takt við tónlistina með því sem aðeins er hægt að lýsa sem danslegum hreyfingum.“ Þessi formlega lýsing embættismannsins dregur upp skýra mynd af lögbroti sem vonandi tókst að kæfa í fæðingu.
Nú kunna einhverjir að halda að stjórnmálamenn átti sig á hversu úreltar þessar reglur eru. Reyndar voru þær einmitt ræddar á sænska þinginu fyrir páska og þurftu þingmenn að greiða atkvæði um það hvort ætti að fella þær úr gildi. Tillagan hlaut ekki hljómgrunn þrátt fyrir ýmsir segðust í raun styðja hana. Talað var um að leggja nýja tillögu fyrir einhvern tímann síðar, en þangað til það gerist er enn bannað að dansa í Svíþjóð – nema með þar til gerðu leyfi.
Hér gefur að líta fólk sem hreyfir sig í takt við tónlist með því sem aðeins er hægt að lýsa sem danslegum hreyfingum.
Dansinn og diskóið
Segja má að dansbannið hafi tengst diskóinu sem margir óttuðust. Orðið diskótek á reyndar uppruna sinn að rekja til Frakklands og var notað til að lýsa stöðum þar sem tónlist var spiluð af hljómplötum en ekki af hljómsveit. Við lok sjöunda áratugarins urðu slíkir klúbbar sífellt vinsælli og spruttu upp eins og gorkúlur í Svíþjóð. Þótti mörgum nóg um og árið 1968 ákvað sveitastjórnin í Örebro að mynda diskóteksnefnd til að fylgjast með þessari nýjung. Ári seinna, eða í mars árið 1969, opnaði svo Don Kíkóte sem var fyrsta diskótekið í opinberri eigu í Svíþjóð. Hugmyndin var sú að opna ódýran dansstað til þess að efnaminna fólk hefði sömu tækifæri til að dansa eins og þeir sem ríkari væru.
Þessi ákvörðun féll hins vegar misvel í kramið hjá fólki og á næstu árum jókst gagnrýnin á diskótekin. Árið 1971 var í fyrsta sinn rætt um diskótek í sænska þinginu. Jafnaðarmaðurinn Åke Gustavsson benti á að ungdómur landsins eyddi um tveimur milljörðum sænskra króna á ári á diskótekum sem væri skýrt merki um arðrán og misnotkun á ungu fólki. Í grein í DN frá 1976 bendir svo þingmaður Vinstri flokksins á að diskótekin vinni gegn sænskri menningarstefnu og að nauðsynlegt sé að berjast gegn áhrifum auðvaldsstefnunnar innan menningargeirans. Árið1979 kröfðust samtök tónlistarmanna þess að sérstakur skattur yrði lagður á staði sem spiluðu tónlist af hljómplötum en biðu ekki upp á lifandi tónlist. Jafnframt var þess krafist að bannað yrði að selja áfengi á slíkum stöðum. Fólk þurfti sem sagt að velja á milli þess að dansa og að drekka.
Menningarelítan virtist mótfallinn diskóstöðunum sem buðu upp á hraðsoðna menningu frá útlöndum en þó voru undantekningar. Ungur rithöfundur og blaðamaður, Stig Larsson, skrifaði árið 1979 að diskótek væru mikilvæg því að ef hægt væri að tala um heimspeki diskóteka væri hún sú að fólk þyrfti ekki að hugsa, bara að vera. Og þannig hefur diskótekum og reyndar diskói verið lýst í gegnum tíðina, sem popptónlist sem gerir það að verkum að fætur hreyfast og axlir hristast, jafnvel án þess að fólk ætli sér að dansa.
Dansinn leiðir til slagsmála og óþrifnaðar
Þessar ósjálfráðu hreyfingar geta sem sagt kostað eigendur skemmtistaða bæði rekstrar- og vínveitingarleyfið. Reglurnar sem nú gilda voru settar 1993 en byggja á eldri reglum frá 1956 og þrátt fyrir ýmsar tilraunir hefur þeim ekki verið breytt. Fyrir þremur árum skipulagði hópur dansáhugafólks mótmæli í Stokkhólmi þar sem ætlunin var að dansa eftir götum miðborgarinnar. Reyndar var sérstaklega tekið fram að hópurinn hefði aðeins leyfi til að ganga um göturnar – ekki hefði verið veitt leyfi til að dansa um göturnar. Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið árið 2012 að hann vonaðist til að reglunum yrði ekki breytt. Hann hefði að sjálfsögðu heilsu veitingahúsagesta í huga því eins og allir vissu snérist þetta fyrst og fremst um öryggi. „Við vitum að á dansgólfum er oftar slegist en á venjulegum veitingastöðum, þar er meira drasl og fleiri uppákomur sem krefjast afskipta lögreglu.“
Nú skal tekið fram að í Svíþjóð er afskaplega auðvelt að finna staði sem bæði bjóða upp á dans og áfengi og ekki þarf að leita lengi um helgar til að finna slagsmál eða drasl í kringum skemmtistaði. En kannski er staðreyndin sú að fátt ógni öryggi almennings meir en fólk sem brestur á með dansi í tíma og ótíma? Lögreglan hefur vísað til skelfilegra atburða á borð við bruna á diskóteki í Gautaborg árið 1998 þar sem 63 létust. Staðreyndin er hins vegar sú að staðir sem bjóða upp á skemmtanir þurfa að sjálfsögðu að uppfylla ákveðnra kröfur um til dæmis brunavarnir og flóttaleiðir. Atburðurinn í Gautaborg varð vegna þess að slíkum kröfum var ekki fullnægt, ekki vegna þess að skipuleggjendur voru ekki með dansleyfi.
Miðað við hvernig stjórnmálamenn tala opinberlega mætti ætla að mótmælin beri árangur því enginn virðist vilja verja reglurnar opinberlega. Í það minnsta tókst P3 stöð sænska ríkisútvarpsins ekki að fá nokkurn stjórnmálamann í viðtal til að tala gegn því að þær yrðu felldar úr gildi. Þar til það gerist – og það hlýtur bara að gerast – verða Svíar því að gæta sín á öllum kækjum og kippum því það er aldrei að vita nema lögreglan mæti á svæðið. Nema auðvitað að Kevin Bacon komi á undan henni.
https://www.youtube.com/watch?v=3T2FpCDlyNg