Það eru sannkallaðir gósentímar framundan hjá þeim sem hyggjast ferðast fljúgandi til og frá Kaupmannahöfn. Að minnsta kosti ef marka má yfirlýsingar flugfélaga sem berjast um farþegana og bjóða fargjöld á sannkölluðum spottprís. Írska lággjaldafélagið Ryan air ætlar að hefja áætlunarflug frá Kastrup í næsta mánuði, SAS hyggst á næstu vikum stofna nýtt lággjaldafélag og ætlar sér stóra sneið af „farþegakökunn,“ og Norwegian flugfélagið ætlar ekki að sitja aðgerðalaust hjá og hyggst bæta við nýjum flugleiðum, meðal annars til Hawai og Suður-Afríku.
Það hafa ekki verið gósentímar í flugrekstrinum að undanförnu, að minnsta kosti ekki hjá stóru norrænu flugfélögunum tveimur, SAS og Norwegian. SAS hefur um árabil átt í miklum rekstrarerfiðleikum og þrátt fyrir að fjöldauppsagnir og lækkun launa hjá starfsfólkinu hefur ekki tekist að koma rekstrinum í viðunandi horf. Fyrir nokkrum mánuðum munaði „engu“ að félagið færi í þrot en á síðustu stundu tókst að koma í veg fyrir að svo færi. Danskur bankasérfræðingur sagði þá að SAS dinglaði enn í snörunni þótt lengt hefði verið í henni. Eitthvað róttækt yrði að koma til ef SAS ætti að lifa.
Red 1
Fyrir nokkrum dögum greindi DR, danska útvarpið, frá því að SAS hefði sent tilkynningu til samkeppniseftirlitsins þar sem fram kæmi að félagið hygðist stofna nýtt flugfélag, Red 1. Jafnframt yrði Cimber flugfélagið, sem SAS keypti í desember í fyrra lagt niður sem slíkt en yrði þó áfram til sem eins konar undirfélag SAS. Cimber á einungis fimm flugvélar en stjórnendur SAS ætla að færa að 12 –15 litlar vélar, 50 til 70 sæta, úr flugflota SAS yfir í nýja félagið Red 1 en SAS á samtals 140 vélar og er stærsta flugfélag á Norðurlöndum.
Red 1 verður lággjaldafélag og SAS ætlar nú fyrir alvöru að blanda sér í þann slag. Um 300 starfsmenn SAS færast yfir til nýja félagsins, það fólk verður ráðið upp á lakari kjör (lægri laun, lengri vinnutími, styttra orlof og svo framvegis) og þannig dregið úr rekstrarkostnaði. Þetta eru í stuttu máli þær aðgerðir sem stjórnendur SAS grípa nú til í því skyni að styrkja rekstur félagsins en jafnframt er ætlunin að endurnýja flugflotann í áföngum, ekki síst með það fyrir augum að draga úr eldsneytiskostnaði. Hvort þetta dugir leiðir tíminn í ljós en fyrir starfsfólkið, um það bil 13 þúsund manns, er mikið í húfi.
Flugvél SAS á Kastrup flugvelli. Rekstur flugfélagsins hefur verið á brauðfótum undanfarin ár, en nú hyggst félagið sækja fram með nýju lággjaldaflugfélagi sem hyggst blanda sér af krafti í slaginn um flugfarþegana.
Norska flugævintýrið
Flugvélar Norwegian hafa um margra ára skeið flogið vængjum þöndum (og með sperrt stél) og félagið hefur sífellt orðið stærra og umsvifameira á evrópskum flugmarkaði. Margir hafa spurt sig hvernig á því standi að þetta flugfélag, sem var stofnað 1993 og sinnti þá eingöngu innanlandsflugi í Noregi, hafi náð að gera sig svo gildandi í flugrekstri sem raun ber vitni. Þessu er ekki auðvelt að svara.
Danskur flugrekstrarsérfræðingur sagði í viðtali nýlega að Norwegian hefði einhvernveginn hitt á óskastund, ef hægt væri að tala um slíkt í flugrekstri, og stjórnendur þess nánast aldrei stigið feilspor í ákvörðunum. Árangurinn ber þess líka vitni, félagið ræður nú yfir um það bil 100 flugvélum, flýgur til 129 áfangastaða og flutti 24 milljónir farþega á síðasta ári. En, það á ekki að láta staðar numið; árið 2012 pantaði Norwegian 222 nýjar flugvélar, Boeing og Airbus, sem verða afhentar á næstu árum. Þetta er stærsti flugvélakaupsamningur sem gerður hefur verið í Evrópu og þegar frá honum var greint sá forstjóri Norwegian ástæðu til að geta þess, þegar hann nefndi töluna 222, að hann stamaði ekki.
Svo kom 2014
En allt er í lífinu hverfult. Um mitt síðasta ár var greint frá því í fréttum að mikið tap hefði orðið á rekstri félagsins frá ársbyrjun 2014 eftir sjö góð ár. Það reyndust orð að sönnu því þegar reikningar liðins árs lágu fyrir kom í ljós að Norwegian hafði tapað um það bil 1,4 milljörðum norskra króna (rúmum 24 milljörðum íslenskum). Þótt veltan sé mikil tekur slíkt tap óneitanlega í.
Ástæðurnar fyrir þessum viðsnúningi eru meðal annars lágt gengi norsku krónunnar, óhagstæðir eldsneytissamningar og verkföll starfsfólks. Bjørn Kjos framkvæmdastjóri og aðaleigandi félagsins sagði í viðtali að þótt tap væri aldrei viðunandi í viðskiptum, frekar en mótvindur í flugi, væri hann eigi að síður bjartsýnn og Norwegian ætlaði sér stóra hluti á næstu árum, ekki síst á lengri flugleiðum. Félagið yrði áfram í fremstu röð. Hann sagði jafnframt að Osló, Stokkhólmur og Kaupmannahöfn yrðu áfram lykilstaðir í starfseminni.
Ryanair
Fyrir nokkrum mánuðum tilkynntu stjórnendur Ryanair að félagið myndi hefja áætlunarflug frá Kaupmannahöfn 26. mars á þessu ári og félagið myndi jafnframt koma upp bækistöð á Kastrup. Þessar fréttir vöktu mikla athygli og ekki voru allir jafn upprifnir yfir tíðindunum, vægast sagt.
Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hafa boðað komu sína á Kastrup og ætlar að storma inn á markaðinn með látum.
Ryanair er þekkt fyrir að fara sínu fram og hefur oft lent í hörðum deilum, ekki síst vegna kjaramála. Stjórnendurnir hafa iðulega verið sakaðir um mikla óbilgirni og að félagið í krafti stærðar sinnar komist upp með ýmislegt sem önnur félög gætu aldrei látið sig dreyma um. Almenningur hefur hins vegar kært sig kollóttan um slíkt tal en hins vegar kunnað vel að meta lágt miðaverð, sem hefur verið aðall félagsins.
Hart móti hörðu
Dönsku launþegasamtökin sögðu þegar þessar fréttir um fyrirhugað flug frá Kastrup bárust, að ekkert væri nema gott um það að segja en forsvarsmenn Ryanair skyldu gera sér grein fyrir að hér væri borgað, og unnið, samkvæmt dönskum kjarasamningum en ekki írskum eins og Ryanair vill ætíð gera. Ryanair segist aftur á móti vera írskt félag sem borgi eftir írskum samningum.
Félagið hótar lögsókn ef Danirnir vilja ekki fallast á þessi rök og dönsku launþegarnir hafa sömuleiðis boðað lögsókn á hendur Ryanair. Forsvarsmenn félagsins vita að dönsku launþegasamtökin eru ekki lömb að leika sér við og geta auðveldlega lamað alla starfsemi Íranna ef svo ber undir.
Michael O'Leary, hinn litríki forstjóri Ryanair, býr sig undir átök við dönsku verkalýðsfélögin.
Ætla í loftið 18. mars
Á fréttamannafundi í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum sagði einn stjórnenda Ryanair að ef komið yrði í veg fyrir að félagið gæti komið upp bækistöð á Kastrup þýddi það auðvitað færri störf en félagið myndi eigi að síður halda sínu striki og hefja áætlunarflug til átta staða 18. mars, þ.e. átta dögum fyrr en fyrst var gert ráð fyrir. Þessir staðir eru: Dublin, London, Brussel, Madrid, Milanó, Róm, Stokkhólmur og Varsjá.
Stjórnendur Ryanair hafa lýst sig fúsa að hitta talsmenn launþegasamtaka á Kastrup. Þetta er talið merki um að þeir átti sig á að Danirnir muni ekki gefa þumlung eftir, því fram til þessa hefur Ryanair aldrei svo mikið sem yrt á talsmenn launþegasamtaka í þeim löndum sem félagið flýgur til.
Á fundinum fyrr í vikunni tilkynnti talsmaður Ryanir að félagið bjóði 3000 farmiða til Dyflinnar á 30 sent (ca. 61 króna íslensk) en þangað er fyrsta flugið frá Kastrup áætlað 18. mars.
Á þessari stundu er engin leið að segja til um hvernig þessi mál æxlast en hins vegar óhætt að slá því föstu að hart verður barist um kúnnana á Kastrup. Slíkt þýðir lægra farmiðaverð og það hljómar vel í eyrum almennings.