Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að þegar á hólminn hafi verið komið í síðustu Alþingiskosningum hafi fólk ekki treyst sér til þess að kjósa breytingar. Þá hafi barnaleg tiltrú flokksins á að Vinstri-Græn hefði raunverulegan áhuga á ríkisstjórnarsamstarfi til vinstri reynst þeim ein þeirra stærstu mistök.
Þetta kom fram í máli Loga á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Logi fór um víðan völl í ræðu sinni, en lá áherslan þó helst á kosningum, bæði síðustu alþingiskosningum sem og komandi sveitarstjórnarkosningum. Sagði Logi ljóst að aldrei fengist nægur slagkraftur til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum umbótamálum fyrir almenning nema með miklu nánara samstarfi umbótaflokkanna í stjórnarandstöðu og að þar megi sérstaklega líta til samstarfs jafnaðarmanna á sveitarstjórnarstiginu, sem Logi telur til mikillar fyrirmyndar og sýni að hægt sé að vinna saman að mikilvægum málum í þágu almennings. Á sveitarstjórnarstiginu ætli Samfylkingin að því að verða áfram í fararbroddi og í í nánu samstarfi við aðra umbótaflokka eftir sveitarstjórnarkosningarnar, sem eru á dagskrá í maí.
Aðild Íslands að Evrópusambandinu verði sett rækilega á dagskrá
Þá snerti Logi einnig á innrás Rússlands í Úkraínu í ræðu sinni og viðbrögðum við henni. Segir hann innrás Rússlands ekki einungis árás gegn Úkraínu heldur árás gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ógn við lýðræði, frið og öryggi til langs tíma og segir mikilvægt að auk þess að taka þátt í samstilltum þvingungaraðgerðum gegn Rússlandi og stuðning við Úkraínu verði leiða leitað til þess að tryggja öryggi og styrkja varnir Íslands.
Telur Logi að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu dugi ekki ein og sér, og að í ljósi þess að Evrópusambandið hafi tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, sé enn meiri ástæða en áður til þess að Ísland gerist fullgildur aðili að þessu samstarfi lýðræðisríkja. Um væri að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og að tími væri kominn til þess að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu rækilega á dagskrá.