Á árinu 20202 námu beinir styrkir úr ríkissjóði til bænda 16,3 milljörðum króna og óbeinir styrkir til þeirra 12,8 milljörðum króna, með hliðsjón af efni Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Beinu styrkirnir eru það skattfé sem rennur beint til bænda úr ríkissjóði en þeir óbeinu eru styrkir sem neytendur greiða í formi hærra vöruverðs sem haldið er uppi með tollskrá og öðrum innflutningstálmunum.
Þetta kemur fram í nýbirtu svari á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem spurningunni „Hvað greiðir ríkissjóður mikið á ári til landbúnaðar á Íslandi?“ er svarað af Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Í svarinu segir þó að líta beri á þessa niðurstöðu, að íslenskur landbúnaður fái alls tæplega 30 milljarða króna meðgjöf á ári frá skattgreiðendum og neytendum, sem lægri mörk hins raunverulega stuðnings. Auk innflutningstakmarkana búi úrvinnslugreinar landbúnaðar við undanþágur frá samkeppnislögum sem ekki sé tekið tillit til í reikniverki OECD sem stuðst er við í svarinu. „Það gefur þessum fyrirtækjum færi á að stunda viðskiptahætti sem önnur fyrirtæki í skyldum rekstri geta ekki. Vísbendingar eru um að slíkir viðskiptahættir þrýsti upp verði á framleiðslu afurðastöðva landbúnaðarins umfram það sem ella hefði orðið.“
Þá sé heldur ekki tekið tillit til þess að bændur hafi gjaldfrjálsan aðgang að afréttum sem þeir hafi nýtt með ósjálfbærum hætti.
Umdeildir samningar til tíu ára
Búvörusamningarnir, sem ramma inn beinar greiðslur til bænda úr ríkissjóði, eru fjórir samningar: Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju.
Þeir voru afar umdeildir og vöktu upp miklar deilur í samfélaginu. Þrennt skipti þar mestu. Í fyrsta lagi lengd þeirra, en samningarnir bundu hendur ríkisstjórna í að minnsta kosti þrjú kjörtímabil. Í öðru lagi feikilega hár kostnaður sem greiddur er úr ríkissjóði til að viðhalda kerfi sem að mati margra hagsmunaaðila er fjandsamlegt neytendum og bændum sjálfum og gagnast fyrst og síðast stórum milliliðsfyrirtækjum eins og Mjólkursamsölunni, Kaupfélagi Skagfirðinga og Sláturfélagi Suðurlands. Í þriðja lagi var gagnrýnt að engir aðrir en bændur og forsvarsmenn ríkisins hafi verið kallaðir að borðinu þegar samningarnir voru undirbúnir.
Kostnaðurinn meiri en áætlað var
Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins voru áætlaðar 132 milljörðum króna á samningstímanum, eða að meðaltali 13,2 milljarðar króna á ári. Auk þess eru samningarnir tvöfalt verðtryggðir. Þ.e. þeir taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og eru „leiðréttir“ ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu.
Ljóst er, miðað við svar Þórólfs sem birtist í vikunni, að beini kostnaðurinn við samninganna er meiri en áætlað var þegar þeir voru gerðir.
Í samningunum var stefnt að því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt verði lagt niður. Hins vegar var ákveðið að halda þáverandi stöðu óbreyttri um einhvern tíma og setja ákvörðun um afnám kvótakerfisins í atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019. Þegar hún fór fram samþykktu 89 prósent bænda að viðhalda kvótakerfinu.