Seðlabankinn brygðist sinni lögbundinni skyldu ef hann léti sig ekki áhættuna sem loftslagsmál fela í sér fyrir efnahagslífið og stöðugleika fjármálakerfisins varða. Þetta segir Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, í jólablaði Vísbendingar.
Stofnanir vinni saman til að greina vandann
Í grein sinni fer Gunnar yfir mögulegar leiðir til að efla umræðu og skilning á hættunni sem felst í loftslagsbreytingum. Þeirra á meðal væri samstarf Seðlabankans við Orkustofnun, Hafrannsóknarstofnun, Veðurstofuna og Náttúruhamfaratryggingu Íslands til að búa til sviðsmyndir fyrir áhrif loftslagsbreytinga á Ísland.
Samkvæmt honum mun Seðlabankinn hafa frumkvæði að því að skoða slíkt samstarf, en hann myndi svo nota þessar sviðsmyndir til að greina möguleg áhrif loftslagsbreytinga á fjármálakerfið og fjármálastöðugleika.
Einnig nefnir Gunnar að seðlabankinn muni efna til málstofu með lífeyrissjóðum á næstu vikum, þar sem farið verði yfir helstu þætti loftslagsáhættu og lagður grunnur að frekara samtali. Þar að auki segir hann að stefnt verði að sams konar málstofu með viðskiptabönkum í kjölfarið.
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
Óumdeilt að loftslagsáhætta sé viðfangsefni bankans
Samkvæmt Gunnari getur áhættan sem er tengd loftslagsbreytingum ógnað því að Seðlabankinn nái markmiðum sínum og þar með sett velferð landsmanna í hættu og ætti því að vera óumdeilt að loftslagsáhætta sé viðfangsefni bankans.
Hann segir þær raddir sem segja að bankinn ætti ekki að skipta sér að þessum málum vera byggðar á misskilningi, þar sem loftslagsbreytingar fela í sér mikla áhættu fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. „Það væri beinlínis óábyrgt af Seðlabankanum að láta sig ekki loftslagsáhættuna varða,“ bætir hann við.