Einungis rúm 7 prósent bíla sem voru nýskráðir á Íslandi í fyrra voru beinskiptir, eða 1.181 af alls 15.797 bílum, samkvæmt tölum sem fram koma í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við skriflegri fyrirspurn þingmannsins Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata. Af þeim bílum sem einstaklingar skráðu á götuna voru einungis um tvö prósent beinskiptir.
Í svarinu frá ráðherra eru dregnar saman tölur frá Samgöngustofu um það hvers konar gírskiptingar eru í þeim bílum sem hafa verið nýskráðir á götuna á árunum 2011 til 2021 og raunar einnig frekari upplýsingar um nýskráða bíla eftir orkugjöfum þeirra og því hvort það eru einstaklingar eða fyrirtæki sem skrá bílana.
Flestir ökukennarar þurfa að hafa beinskiptan kennslubíl
Þingmaðurinn sem kallaði eftir þessum upplýsingum segir, spurður um hvers vegna í ósköpunum hann hafi kallað eftir þessum upplýsingum, að það hafi ef til vill ekki verið mjög djúp pæling á bak við fyrirspurnina til ráðherra.
„Þetta byrjaði á að ég spjallaði við ökukennara sem fannst asnalegt að allir ökukennarar verða eiginlega að eiga beinskiptan kennslubíl (og sum eiga sjálfskiptan með). Beinskiptir eru eiginlega alltaf með brunahreyfil, hreinorkubílar eiginlega alltaf sjálfskiptir. Þannig að til að vera með „fullt“ ökuskírteini lærir þorri fólks á bíl með brunahreyfil,“ segir Andrés Ingi og bætir við að hvort það hvernig ökutæki fólk læri á geti ekki haft einhver áhrif á það hverskonar ökutæki fólk velur sér.
Í fyrirspurn sinni spurði þingmaðurinn hvort ráðherra teldi að núverandi reglugerð um ökuskírteini, sem kveður á um takmörkun á ökuskírteini þeirra sem taka verklegt próf á sjálfskipt ökutæki, væri „í samræmi við þróun bílaflotans og markmið stjórnvalda í orkuskiptum.“
Í svari Sigurðar Inga segir að eðlilegt sé að gera þá kröfu til þeirra sem hyggjast aka beinskiptum ökutækjum að þeir hafi sýnt fram á viðunandi kunnáttu með próftöku á viðeigandi ökutæki. Hins vegar verði að telja fullnægjandi að notast sé við sjálfskipt ökutæki í verklegu prófi ef ætlunin er aðeins að aka sjálfskiptum ökutækjum. „Ekki verður séð að þetta fyrirkomulag sé í andstöðu við markmið stjórnvalda í orkuskiptum eða í ósamræmi við þróun bílaflotans,“ segir í svari ráðherra.
Bjóst ekki við því að sjá jafn mikið hrun og blasir við
Andrés Ingi segir að eftir spjallið við ökukennarann hafi hann orðið forvitinn um að vita hversu hratt þetta væri að breytast og bætir við að það sé sjálfsagt margt hægt að draga út úr þeim miklu upplýsingum um nýskráningar bílaflotans sem hann fékk í svarinu frá ráðherra.
Sjálfur segist hann ekki hafa búist við því hruni sem merkjanlegt er í beinskiptingunni – en einungis 2 prósent þeirra bíla sem einstaklingar skráðu á götuna árið 2021 voru beinskiptir og hefur sú tala farið lækkandi ár frá ári síðustu ár.
Í upphafi síðasta áratugs og inn á hann miðjan var nærri fjórðungur nýskráðra bíla sem einstaklingar keyptu beinskiptur, en hlufallið fór í fyrsta sinn undir 20 prósent árið 2017 og nú er svo komið að einungis einn af hverjum 50 nýjum bílum sem skráðir eru á götuna af einstaklingum eru beinskiptir.
Hvað nýskráningar fyrirtækja varðar var um helmingur nýskráðra bíla beinskiptur fram til ársins 2015 en síðan hafa þær nýskráningar dalað verulega – niður í 13 prósent af nýskráðum bílum árið 2021.