Benedikt Einarsson, lögmaður og fjárfestir, segist ekki eiga neinn eignarhlut, hvorki beint né óbeint, í Matorku ehf. eða svissneska félaginu Matorku Holding AG. Í tölvupósti sem Benedikt sendi Kjarnanum segir: „Ég sit í stjórn Matorku Holding AG fyrir hönd hluthafa sem heitir P126 ehf., en það félag er að fullu í eigu föður míns, Einars Sveinssonar, í gegnum erlent eignarhaldsfélag hans. P126 á tæplega 5% í Matorku og því ekki meirihlutaeigandi (Mig minnir jafnframt að hlutur Eiríks Svavarssonar og hans konu sé undir 20%). Ég er ekki heldur, hvorki beint né óbeint, hluthafi í Borgun eða Thorsil.“
Í umfjöllun Kastljóss, sem Kjarninn sagði frá í gærkvöldi, kom fram að helstu eigendur Matorku væru þeir Benedikt Einarsson og Eiríkur Svavarsson. Þar segir einnig: „Benedikt er frændi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar og fyrrum viðskiptafélagi hans á árunum fyrir hrun. Benedikt er einnig hluthafi í Thorsil, sem nýverið gerði fjárfestingasamning við stjórnvöld vegna kísiliðju á Reykjanesi og svo á hann hlut í félaginu sem keypti Borgun af Landsbankanum nýverið.“ Þessu eignarhaldi neitar Benedikt alfarið.
Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá er eigandi P-126 ehf. kýpverskt félag sem heitir Charamino Holdings Limited. Það félag er á meðal eigenda Borgunar og Thorsil og er skráð til heimilis á sama stað og Benedikt Einarsson. Hann, eða meðeigandi hans á lögmannsstofunni Atlantik legal services ehf., koma fram fyrir hönd félagsins og undirrita saminga fyrir það. Ekki er hægt að nálgast upplýsingar um endanlegan eiganda Charamino Holdings Limited í fyrirtækjaskrá en samkvæmt tölvubréfi Benedikts er Einar Sveinsson, faðir hans, eini eigandi þess.