Kvikmyndin Hross í oss, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi í gærkvöldi. Eftir að Benedikt hafði veitt verðlaununum viðtöku, ásamt Friðriki Þór Friðrikssyni framleiðanda myndarinnar, hélt leikstjórinn þakkarræðu þar sem hann vandaði íslenskum stjórnvöldum ekki kveðjurnar.
Í ræðu sinni sagði Benedikt: "Kæru norrænu félagar, hér í salnum sitja íslenskir stjórnmálamenn sem skáru niður fjárframlög til kvikmyndagerðar um 42 prósent á þessu ári, en í kjölfar efnahagshrunsins skáru þeir fjárframlögin niður um þrjátíu prósent. Þannig að við erum stödd í miðri katastrófu. Þannig að við myndum meta það mikils ef þið gætuð hjálpað okkur í eftirpartýinu með því að nálgast þá kurteisislega og fræða þá um kvikmyndir og menningu, tala við þá um Íslendingasögurnar og segja þeim að við sem erum að búa til sögur, séum líka að búa til Íslendingasögur, norskar sögur og danskar sögur, þó þær séu ekki skrifaðar á skinn. Þið getið líka útskýrt fyrir þeim að til þess að skrifa niður íslenska sögu þarf skinn til að skrifa á, og til að fá skinn þarf að slátra kú. Þannig að endilega talið fyrir þeim að slátra kúm. Þetta gætu orðið góðar samræður og gefið þessu mjög dýra partýi einhverja þýðingu fyrir okkur."
Móðgaði menntamálaráðherra sem sat í salnum
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var viðstaddur verðlaunaafhendinguna í gærkvöldi, og telja má nokkuð víst að Benedikt hafi verið að beina gagnrýni sinni meðal annars að honum. Hrannar B. Arnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, birti þakkarræðu Benedikts á Facebook síðunni sinni.
Svo virðist sem að Illugi hafi móðgast við ræðu Benedikts, en til orðaskipta kom á milli þeirra eftir verðlaunaafhendinguna. "Ég hitti Illuga og við áttum ákveðnar viðræður upp á vestfirsku. Hann gerði athugasemdir við ræðuna mína, hann hefur jú málfrelsi eins og ég hef málfrelsi. Eru stjórnmálamenn ekki annars með harðan skráp?"
Ráðherrar sem hafa skotið sig í fótinn en haltra áfram
Í samtali við Kjarnann sagði Benedikt ennfremur: "Ráðherrunum finnst sjálfsagt að þeir séu að standa sig vel innan þeirra forsenda sem þeir hafa gefið sér, en mér finnst eins og þeir séu menn sem hafi skotið sig í fótinn og finnist þeir svo standa sig vel á meðan þeir haltra áfram. Auðvitað sárnar mönnum þegar einhver æpir á haltann mann að hann megi fara hraðar, því honum finnst hann auðvitað vera að standa sig vel."
Benedikt segir niðurskurð á fjárframlögum til kvikmyndagerðar hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir geirann. "Ég er ekkert að fara að gera mynd á næsta ári þrátt fyrir alla þessa velgengni, af því að sjóðurinn er tómur. Það eru fullt af frábærum kvikmyndagerðarmönnum með frábær verkefni í pípunum en það er bara allt kafnað. Áhrifin af niðurskurðinum munu skila sér af fullum þunga á næstu tveimur til þremur árum. Þetta er mjög sorglegt því það er mikið blómaskeið í gangi og erlendis er talað um ákveðna íslenska bylgju í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda undanfarið. Nú kemur bara vetur."