Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins beindi fyrr á þessu ári skriflegri fyrirspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um hvort til væri skilgreining á hugtakinu hamfarahlýnun. Ef skilgreiningin væri til, vildi þingmaðurinn fá að sjá hana.
Fyrirspurninni hefur nú verið svarað fyrir hönd ráðherra, en í svarinu segir að fyrirspurnin „hefði mögulega átt að beina til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“ og segir í svarinu frá ráðherra að fyrirspurninni sé svarað út frá útgefnu efni, en ef frekari greining óskist væri rétt fyrir þingmanninn að fá frekari umfjöllun um málið hjá Árnastofnun.
Þess má geta að orðið hamfarahlýnun var valið orð ársins árið 2019, af hlustendum RÚV og Stofnun Árna Magnússonar, en fyrstu heimildir um orðið eru frá árinu 2013 og mun Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna fyrstur hafa notað það í umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum, samkvæmt umfjöllun málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins um orðið.
Í svari ráðuneytisins segir að orðið hamfarahlýnun hafi verið notað undanfarin ár sem samheiti við loftslagsbreytingar eða hlýnun jarðar og þess getið að Loftslagsráð hafi fjallað um notkun hugtaksins í skýrslu um aðlögun að loftslagsbreytingum, Að búa sig undir breyttan heim, sem gefin var út í janúar 2020.
Í þeirri skýrslu segir orðrétt:
„Í almannaumræðu hefur verið rætt um að nota eigi sterkara orð um loftslagsbreytingar til þess að vekja hughrif sem hæfa alvarleika hlýnunar og hafa ýmis orð borið á góma. Nýyrðið hamfarahlýnun hefur verið notað í bland við loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar sem hafa skipað sér sess í málinu en þykja af mörgum of hlutlaus fyrir jafn alvarlegan vanda. Hugtakið loftslagshamfarir hefur einnig verið notað í almennri umræðu um loftslagsvandann og samhliða því verið kallað eftir að þjóðríki lýsi yfir neyðarástandi vegna stöðunnar í loftslagsmálum. Í stað þess að nota hugtakið loftslagshamfarir yfir loftslagsvandann mætti hugsa sér að nota það til þess að vísa til sérstaklega alvarlegra atburða vegna loftslagsbreytinga sem skapa neyðarástand, eins konar undirflokk náttúruhamfara þar sem orsakatengsl eru milli atburða og hlýnunar jarðar. Hins vegar skal hafa í huga að mun fleiri loftslagstengdir atburðir sem verða munu á Íslandi falla ekki undir skilgreiningu hamfara og því er gagnlegt að eiga hugtök sem vísa til minni atburða, minna tjóns af loftslagsvöldum, t.d. eru flest flóð sem valda tjóni á Íslandi svokölluð amaflóð (e. nuisance flooding) en ekki hamfaraflóð.“