Óperusöngvarinn Bergþór Pálsson hefur velt hlutverki forseta Íslands, mikilvægi þess fyrir þjóðina og kostum sínum og göllum til að sinna embættinu mikið fyrir sér í kjölfar þess að margir hafa hvatt hann til að bjóða sig fram í það sumarið 2016. Bergþór segist ekki vera kominn á þá niðurstöðu að kostir hans vegi þyngra en þó sé ekki tímabært að ákveða eitt eða neitt. Þetta kemur fram í viðtali við Bergþór á Vísi.
Gæti orðið fyrsta samkynhneigði forsetinn
Í þjóðarpúlsi Gallup, sem var birtur í lok júlí, sögðust sex af hverjum tíu aðspurðum ekki vita ekki hvern þeir vilja sem næsta forseta Íslands. Ellefu prósent þjóðarinnar sem hefur myndað sér afstöðu gagnvart spurningunni vildu Ólaf Ragnar Grímsson áfram á forsetastóli en 21 prósent aðspurðra vilja fá Jón Gnarr í hann.
Þegar einungis var tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu til sérstaks frambjóðenda þá kom í ljós að 21 prósent vildu fá Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur, sem næsta forseta Íslands. Þá nefndu 17 prósent Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem þann sem þeir vilja í embætti forseta Íslands. Mun fleiri nefndu nöfn þeirra tveggja en nafn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem mun hafa setið í forsetaembætti í 20 ár þegar kosið verður á næsta ári. Vert er að taka fram að bæði Jón og Katrín hafa gefið það út að þau sækist ekki eftir því að verða næsti forseti Íslands.
Bergþór var ekki á meðal þeirra sem mælast með mestan stuðning í embættið en nafn hans hefur þó lengi verið í umræðunni. Hann segir marga hafa komið að máli við sig vegna mögulegs framboðs, meðal annars vegna þess að það gæti verið flott fyrir Íslendinga að geta sagst eiga fyrsta kvennforsetann (Vigdísi Finnbogadóttur) og svo fyrsta samkynhneigða forsetann, hann sjálfan. Bergþóri finnst helst vanta hjá sér að vera fróðari. "Forsetinn þarf að segja eitthvað af viti þar sem hann kemur.“
Brátt skýrist hvort Ólafur Ragnar Grímsson muni gefa kost á sér til að sitja sjötta kjörtímabil sitt sem forseti.
Getum staðið saman um réttlátt þjóðfélag
Bergþór er einnig þeirrar skoðunar að það þurfi einhvern til að peppa þjóðina upp. "Fá hana til að átta sig á hvað hún hefur mikla mannauð og hvað hún er æðisleg. Við þurfum að setjast niður og finna þennan styrk sem við eigum. Og það þýðir ekki að við eigum að hætta að gagnrýna, ég er ekki að segja það. Við getum haldið áfram að standa saman um að það eigi að vera hér réttlátt þjóðfélag og allt það og það eigi ekki að ræna okkur.“
Enn sem komið er hefur Bergþór ekki komist að þeirri niðurstöðu að kostir hans vegi þyngri en gallarnir. Þó sé ekki tímabært að ákveða eitt eða neitt. „Ólafur Ragnar hefur ekki gefið neitt út og hann getur örugglega sinnt þessu vel áfram. Hann hefur átt í þessu glæsilegan feril á sinn hátt.“