Stjórn Bandalags háskólamanna (BHM) ákvað á dögunum að höfða prófmál á hendur RÚV til að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort biðlaunaréttur starfsmanna RÚV hafi haldist óbreyttur eftir að stofnunin var gerð að opinberu hlutafélagi. BHM höfðar málið gegn RÚV fyrir hönd íþróttafréttamannsins Adolfs Inga Erlingssonar, sem hefur átt í árangurslausum samningaviðræðum við RÚV varðandi starfslok sín undanfarin misseri. Adolfi Inga var sagt upp störfum á RÚV 27. nóvember árið 2013.
BHM er á þeirri skoðun að starfsmenn sem voru í starfi 1. apríl 2007, þegar RÚV ohf. yfirtók starfsemi Ríkisútvarpsins, eigi rétt til biðlauna vegna niðurlagningar á stöðu, enda hafi opinbera hlutafélagið yfirtekið réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum starfsmanna samkvæmt sérstakri yfirlýsingu. Þá hafi þeir starfsmenn sem héldu áfram störfum hjá RÚV ohf og undirrituðu yfirlýsinguna staðfest að þeir þiggi „óbreytt starf og starfskjör hjá hinu nýja félagi.“
Segja tölvupóst frá yfirstjórn RÚV staðfesta biðlaunaréttinn
Á meðal gagna sem BHM mun leggja fram við málflutninginn, samkvæmt heimildum Kjarnans, er tölvupóstur sem yfirstjórn RÚV sendi til allra starfsmanna 1. febrúar 2007. Tölvupósturinn var sendur á starfsmenn vegna yfirlýsingarinnar sem þeir starfsmenn sem hugðust vinna áfram hjá RÚV eftir ohf - væðinguna þurftu að undirrita. BHM telur að tölvupósturinn staðfesti skilning sambandsins á því að biðlaunaréttur hafi átt að fylgja störfum hjá RÚV ohf.
Þar segir: „Með því að undirrita bréf þess efnis að viðkomandi ætli að starfa hjá Rúv eftir 1. apríl nk. staðfestir starfsmaður um leið að hann afsali sér biðlaunarétti í tengslum við þá breytingu sem verður á rekstrarformi Rúv. Það þýðir ekki að viðkomandi sé búinn að afsala sér biðlaunarétti komi til þess að starf hans verði lagt niður eftir aðilaskipti heldur aðeins að hann muni ekki nýta biðlaunarétt sinn við rekstrarformsbreytinguna. Starfsmenn sem ekki eiga biðlaunarétt og ætla ekki að þiggja starf hjá Rúv ohf. þyrftu því í raun að segja starfi sínu lausu.“
Í samtali við Kjarnann segir Páll Halldórsson, formaður BHM, að stjórn bandalagsins hafi ákveðið að höfða málið fyrir hönd Adolfs Inga, því mikilvægt sé að dómstólar skeri úr um stöðu og réttindi starfsmanna stofnana sem breytt er í opinber hlutafélög.