Á þriðjudaginn var það fyrst staðfest í mínum huga að Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi, myndi verða hluti af framlagi Íslands í úrslitum Eurovision. Mjög fátt milli himins og jarðar er ólíklegra en það í mínum huga, þekkjandi kauða. En þetta er sum sé búið að gerast; Bibbi var þarna í bakröddunum á sviðinu í Kaupmannahöfn. Það er búið að staðfesta þetta á ýmsa vegu, myndir og myndbönd og fleira. Hann hefur þó látið glitta í sinn innri mann á Facebook ; var í Slayer-bolnum innan undir búningnum góða. Sumt breytist aldrei og það er mikilvægt að það geri það ekki.
Með honum í bakröddunum var annar maður sem er dagsdaglega í hlutverki sem ég held að hann hafi verið frekar ólíklegur til þess að sinna, svona framan af í það minnsta. Metal-söngvaragoðsögnin Óttarr Proppé vinnur við að búa til lög á daginn. Ekki metal-lög, heldur lögin í landinu, hvað má og hvað má ekki.
Mér finnst þetta eiginlega fallegt. Þeir Pollapönkara-Botnleðju-FH Mafíu menn hafa prófað svo margt að þeirra nýju skemmtilegu verkefni eru hætt að koma manni á óvart. Nema kannski þegar Halli í Botnleðju var farinn að leiða þúsundir starfsmanna á leikskólum í kjarabaráttu við yfirvaldið. Ég viðurkenni að í fyrstu var það svolítið skrýtið.
En þessar bakraddir. Vá.
Ályktunin sem má draga af þessum litríka hópi er einföld og stutt; Allt getur gerst, allt er mögulegt. Kjarninn sendir Pollapönkurum fordómalausar kveðjur til Kaupmannahafnar, breiðið út fagnaðarerindið í kvöld, verið góð. Áfram Ísland!