Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, mun tilkynna hvort hann fer í framboð til forseta eða ekki á næstu tíu dögum. Þetta segir CBS fréttastofan, sem hefur eftir heimildarmönnum að líklegra sé en ekki að hann fari fram.
CBS hefur rætt við þrjá heimildarmenn nákomna Biden. Fjölskylduástæður eru sagðar helsta hindrunin fyrir framboði hans.
Jafnvel þótt hann verði búinn að tilkynna um framboð er Biden sagður ætla að sleppa fyrstu kappræðunum meðal frambjóðenda demókrata, sem fara fram 13. október. Biden þurfi tíma til að setja saman teymi í kringum kosningabaráttuna og safna peningum.
Nýlegar skoðanakannanir hafa sýnt að Biden gæti verið verðugur keppinautur Hillary Clinton, sem er enn vinsælasti frambjóðandinn. Könnun sem var gerð fyrir Bloomberg sýndi að 25 prósent demókrata myndu styðja varaforsetann, en 33 prósent styðja Clinton og 24 prósent Bernie Sanders.