Þegar sjónvarpsviðburður á borð við Óskarsverðlaunin, sem afhent verða við hátíðlega athöfn vestan hafs í nótt, á sér stað taka svívirðingar að streyma inn á samfélagsmiðla þar sem „sófasérfræðingar“ heimsins víla ekki fyrir sér að gagnrýna útlit þeirra sem bregða fyrir á sjónvarpsskjánum. Oftar en ekki verða kvenmenn hvað harðast fyrir barðinu frá illum tungum og þá í flestum tilfellum frá kynsystrum þeirra sem finna þeim allt til foráttu.
Samfélagsmiðillinn Twitter og Dove snyrtivörufyrirtækið hafa nú hrundið af stað átaki til að sporna gegn neikvæðri umræðu á netinu. Fyrirtækin biðla til fólks að halda aftur af neikvæðninni í kvöld þegar Óskarsverðlaunaafhendingin fer fram og verður sérstök sjónvarpsauglýsing vegna vitundarvakningarinnar sýnd í aðdraganda hátíðarinnar, þegar fræga fólkið er að ganga á rauða dreglinum. Átakið snýst ekki síst um að fólk hætti líka að skrifa af neikvæðni um útlit sitt og líkamsbyggingu.
Þeir sem vilja taka þátt í átakinu og „byltingunni“ geta notað #SpeakBeautiful á samfélagsmiðlum, og þá hafa Twitter og Dove ráðið til starfa hóp af sjálfsstyrkingar-sérfræðingum sem munu bregðast við neikvæðum færslum á Twitter í kvöld.
Fyrirtækin vilja beina þeim skilaboðum til fólks að það hætti að gagnrýna fræga og fína fólkið á rauða dreglinum og það hætti sömuleiðis að hata sjálft sig fyrir að vera með appelsínuhúð. Þá ætti fólk að hætta að vera svo gagnrýnið á útlit kvenna, og einbeita sér þess í stað að hrósa þeim fyrir hæfileika þeirra, greind og styrkleika.
Hægt er að sjá auglýsinguna frá Twitter og Dove, sem verður sýnd í tengslum við Óskarsverðlaunaafhendinguna í kvöld, hér að neðan.