Bankar í Grikklandi opnuðu á ný í morgun eftir að hafa verið lokaðir í þrjár vikur. Biðraðir mynduðust víða fyrir opnun.
Þrátt fyrir að bankarnir hafi opnað er starfsemi þeirra áfram verulega skert. Það eru enn höft og viðskiptavinir bankanna mega bara taka út 420 evrur á viku, sem er örlítil breyting á hámarkinu sem verið hefur, 60 evrur á dag. Það verður ekki hægt að leysa út ávísanir og ekki verður hægt að taka út reiðufé í öðrum löndum en Grikklandi, aðeins hægt að borga með kortum. Þá eru líka hömlur á opnun nýrra bankareikninga.
Gríska kauphöllin mun hins vegar ekki opna á ný í dag, en henni var lokað á sama tíma og bönkunum. Talið er að hún muni opna innan fárra daga.
Louka Katseli, formaður samtaka fjármálafyrirtækja í Grikklandi, sagði við Skai sjónvarpsstsöðina í gærkvöldi að nú væri tíminn til að hjálpa gríska hagkerfinu með því að fólk mætti í banka í dag og legði inn peninga. „Ef við tökum peninga af heimilum okkar, þar sem þeir eru ekki öruggir, og leggjum þá inn í bankana munum við styrkja lausafjárstöðuna.“
Virðisaukaskattur, meðal annars á mat og almenningssamgöngur, er meðal þess sem hækkar frá og með deginum í dag, úr 13 prósentum í 23 prósent.
Í dag eiga Grikkir einnig að borga 3,5 milljarða evra til baka til Seðlabanka Evrópu. Að auki borga þeir 700 milljónir evra í vexti. Þeim hefði verið ómögulegt að greiða þessa upphæð til baka ef ekki hefði verið samið í síðustu viku. Bráðabirgðalán til Grikkja upp á sjö milljarða evra ætti nú að ná til þeirra í tæka tíð áður en þeir þurfa að borga Seðlabanka Evrópu til baka.