Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Ölmu leigufélags og einn helsti eigandi þess, segir að 30 prósent hækkun á leigu til leigutaka félagsins sem rataði nýverið í fréttir hafi verið fullkomlega eðlileg aðlögun að gjörbreyttu markaðsverði í miðborginni. Eftir nánari skoðun skuli það þó „ fúslega viðurkennt að standa hefði mátt með nærgætnari hætti að tilkynningunni um nýtt leiguverð þegar hækkun var jafn mikil og raun bar vitni. Á því er beðist afsökunar.“
Þetta kemur fram í grein sem Gunnar skrifar í Fréttablaðið í dag.
Fyrir rúmri viku greindi Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, frá því á Facebook-síðu sinni að hann hefði fengið tölvupóst frá leigutaka á almennum leigumarkaði. Pósturinn var frá konu sem heitir Brynja Bjarnadóttir, er 65 ára einstæð kona og sjúklingur sem leigir hjá Ölmu íbúðafélagi. „Alma býður henni nýjan 12 mánaða leigusamning sem mun taka gildi frá byrjun febrúar á næsta ári með hækkun upp á 75.247 kr. á mánuði miðað við vísitölu í nóvember, sem var 555,6 en er komin 560,9. Það þýðir að hækkunin sem henni stendur til boða verður 78.347 kr. á mánuði frá og með febrúar næstkomandi en fer að öllum líkindum hækkandi fram að þeim tíma.“ Leiga Brynju myndi samkvæmt þessu hækka upp í 328 þúsund krónur á mánuði.
Þessi skilaboð vöktu hörð viðbrögð víða. Rætt var um þau á þingi þar sem Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, fór fram á að sett yrðu neyðarlög til að verja heimili landsins fyrir hækkunum eins og þessum. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók undir gagnrýnina og sagði hækkunina „óforsvaranlega“. Ekki væri hægt að þola hvaða framkomu sem er gagnvart leigjendum.
Hafa endurskoðað verkferla
Gunnar segir í grein sinni í dag að sumir hafi talað um þessa hækkun í fleirtölu og gefið þannig í skyn að Alma hafi hækkað húsaleigu til allra viðskiptavina sinna um 30 prósent. „Það er alrangt. Þær hækkanir sem hluta af leigjendum okkar var tilkynnt um að kæmu til framkvæmda í upphafi næsta árs voru að meðaltali innan við tíu prósent. Þetta tiltekna tilfelli kom upp vegna þess að verið var að uppreikna og endurnýja samning sem upphaflega var stofnað til þegar leiguverð í miðbænum var lágt í miðjum kórónuveirufaraldrinum. Sá veruleiki er allt annar í dag.“
Gunnar segir að á leigumarkaði gildi sömu lögmál og við fasteignakaup. „Leiguverð hlýtur alltaf að fylgja kostnaði og markaði. Rétt eins og kaupverð íbúða. Þegar grannt er skoðað er annað óhugsandi. Og hefur ekkert með græðgi að gera heldur eðlilega framlegð af því fjármagni sem bundið er í rekstrinum.“
Hvatt til sniðgöngu á vörum framleiddum af eigandanum
Eigandi Ölmu er fjárfestingafélagið Langisjór. Það er stórtækt í matvælaframleiðslu og á meðal annars Mata hf., Matfugl ehf. Salathúsið ehf. og Síld og fisk ehf. Langisjór hagnaðist alls um 13,7 milljarða króna í fyrra og eigið fé þess var 23 milljarðar króna. Félagið er að í eigu fjögurra systkina: Eggerts, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslasona og fjölskyldna þeirra. Á samfélagsmiðlum síðustu daga hafa margir hvatt til þess að allar vörur sem fyrirtæki í eigu Langasjávar selja verði sniðgengnar. Á meðal þeirra er Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Færslu hans hefur verið deilt yfir 1.700 sinnum.
Hér eru vörumerki sem fólk ætti að sniðganga ef því blöskrar 30% hækkun leigu hjá Ölmu leigufélagi. Systkinin sem eiga...
Posted by Gunnar Smári Egilsson on Thursday, December 8, 2022
Alma hagnaðist um 12,4 milljarðar króna í fyrra. Ofan á það nam hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 4,7 milljörðum króna. Samanlagt hagnaðist félagið því um 17,1 milljarð króna á 18 mánuðum, eða um 950 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Hagnaðurinn er að mestu tilkominn vegna matsbreytinga á eignum og hækkun á virði hlutabréfa sem Alma á í. Þar er um að ræða hluti í fasteignafélögunum Eik, Reitum og Reginn sem öll eru skráð á markað. Þeir hlutir eru í gegnum dótturfélagið Brimgarða, sem er stærsti einstaki eigandi Eikar með 16,5 prósent hlut, stærsti einkafjárfestirinn í Reitum með 5,6 prósent hlut og í Reginn með 3,9 prósent hlut.
Þessi þrjú fasteignafélög eru langstærstu slíku félögin á Íslandi. Sameiginlegt heildarmarkaðsvirði þeirra er um 159 milljarðar króna.