Lengstur meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði á síðasta ári var 30 mánuðir hjá Kópavogsbæ og Akraneskaupstauð. Í Reykjavík var meðalbiðtími 29 mánuðir og 24 mánuðir hjá Hveragerðisbæ. Á landsvísu var meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði 26,6 mánuði.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Varasjóðs húsnæðismála sem birt var á vef velferðarráðuneytisins í dag. Sjóðurinn hefur frá árinu 2004 annast árlega könnun á stöðu félagslegs leiguhúsnæðis hjá sveitarfélögum landsins.
Fram kemur í skýrslunni að sveitarfélögin í landinu áttu í lok síðasta árs tæplega 5.000 leiguíbúðir. Sjö sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð, samtals um 131 íbúð. Mestu munar um áform Félagsbústaða hf. í Reykjavík sem ætla að kaupa eða byggja samtals 100 íbúðir. Þrjú önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að fjölga íbúðum um samtals 21 íbúð, þ.e. Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær og fjögur sveitarfélög á landsbyggðinni ætla að fjölga íbúðum samtals um 10.
Árið 2014 voru 26 sveitarfélög sem töldu vera „skort eða nokkurn skort“ á félagslegum leiguíbúðum í sínu umdæmi í samanburði við 40 sveitarfélög árið áður. Alls töldu 18 sveitarfélög markaðinn vera í jafnvægi og þrjú sveitarfélög töldu sig búa við „offramboð eða nokkurt offramboð“ á félagslegum leiguíbúðum.
Þorri umsækjenda um félagslegar leiguíbúðir eru í Reykjavík og sveitarfélögunum umhverfis höfuðborgina, þ.e. í „Kraganum.“ Um 75% umsóknanna eru af þessu svæði. Umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði á landsvísu fækkaði um 10% milli áranna 2013 og 2014 og fólki á biðlistum fækkaði um 6% á landsvísu. Yfir 80% umsækjenda á biðlistum eru á höfuðborgarsvæðinu.