Bílafloti Nígeríumanna er að stækka hraðar en bílafloti annarra ríkja. Ástæðan er aukin kaupmáttur og stækkun millistéttar í landinu. Hagkerfi Nígeríu er það stærsta í Afríku en íbúar landsins eru 177 milljónir og hefur meðaltalshagvöxtur í landinu á síðustu fimm árum verið 6,4 prósent, samkvæmt upplýsingum Þróunarbanka Afríku sem gert er grein fyrir á vefsíðunni Nigeriantext.com.
Til samanburðar má nefna að íbúar Þýskalands, mesta efnahagsstórveldis Evrópu um þessar mundir, eru um 80 milljónir.
Bílaflotinn í Nígeríu stækkar sífellt, og einna helst vegna þess að bílaframleiðsla í Nígeríu hefur aukist stórkostlega á skömmum tíma. Japanski bílaframleiðandinn Nissan fer þar fremstur í flokki með framleiðslu ódýrra bíla undir yfirskriftinni „framleitt í Nígeríu fyrir Nígeríubúa“. Jimmy Dando, framkvæmdastjóri Nissan í Afríku, segir að markaðurinn í Afríku, þegar kemur að hinum ýmsu neysluvörum, sé að stækka ört og Nígería sé miðpunkturinn í þessum vexti.
Þrátt fyrir að Afríka sé oft beintengd við fátækt í huga fólks, vegna mikillar fátæktar víða í álfunni, þá er vöxtur á þróuðustu svæðum álfunnar óvíða meiri í heiminum. Stórfyrirtæki á borð við Proctor & Gamble, Nissand, Unilever, Dow, Chemical og General Electric, hafa opnað starfsstöðvar í Nígeríu að undanförnu, og hefur erlend fjárfesting í landinu aukist um 7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 910 milljörðum króna.