Þann 1. ágúst næstkomandi munu stöðubrotsgjöld Bílastæðasjóðs Reykjavíkur tvöfaldast. Sekt vegna lagningar bifreiðar í stæði fyrir hreyfihamlaða án heimildar verður tuttugu þúsund krónur eftir hækkun og stöðvunarbrotagjöld vegna annarra stöðubrota verða tíu þúsund krónur, samkvæmt auglýsingu á vefsíðu Bílastæðasjóðs. Önnur stöðvunarbrot eru til dæmis vegna lagningar bifreiðar á gangstétt, gangbraut, vegamótum, í stæði fyrir hópbifreiðar eða þar sem umferðarmerki gefur til kynna bann við lagningu eða stöðvun bifreiðar.
Stöðvunarbrotagjöld Bílastæðasjóðs eru í dag fimm þúsund krónur og tíu þúsund krónur ef lagt er í stæði fyrir hreyfihamlaða án heimildar.
Veittur er 1.100 króna afsláttur ef greitt er í bankastofnun eða heimabanka innan þriggja virkra dgaa frá álagningu gjaldsins. Gjald sem er ógreitt 14 dögum frá álagningu hækkar um 50 prósent og sé það ógreitt 28 dögum eftir álagningu hækkar það um 100 prósent.