Birgitta Jónsdóttir, einn þriggja þingmanna Pírata, segir að því fylgi óraunveruleikatilfinning að sjá fylgi flokksins mælast í þeim hæðum sem það hefur gert í undanförnum skoðanakönnunum. Gallup birti í gær nýja könnun sem sýndi að fylgi við Pírata er 32 prósent og flokkurinn mælist með langmest fylgi allra stjórnmálaflokka í dag. Þetta var fjórði mánuðurinn í röð sem Píratar mælast stærstir í könnunum Gallup. Allan þann tíma hefur fylgi flokksins mælst yfir 30 prósentum. Sú mikla fylgisaukning sem Píratar eru að upplifa í dag er einstök í Íslandssögunni.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag sagðist Birgitta vera þakklát fyrir traustið. „Við vonum bara að ríkisstjórnin og aðrir flokkar hlusti eftir því sem fólk er að kalla eftir eð því að lýsa yfir stuðningi við Pírata.“
Aðspurð um hvað það sé sem fólkið sé að kalla eftir sagði Birgitta það vera grundvalllarbreytingu á löskuðu kerfi. Hér væri frændhygli, spilling og óskilvirkni við lýði og engu skipti hver væri við völd á meðan að þessir þættir væru innbyggðir í kerfið. Það þyrfti að breyta þeim kerfum sem eiga að þjóna almenningi en virðast ekki vera að gera það.
Allir aðrir í tilvistakreppu
Í könnun Gallups í gær kom fram að 36 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú þegar stutt er í að síðari hluti kjörtímabilsins hefjist. Stuðningur við ríkisstjórnina stóð í stað milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 24 prósent fylgi sem er svipað og versta útkoma flokksins í sögunni, en hann fékk 23,7 prósent í alþingiskosningunum 2009. Þegar kosið var fyrir tveimur árum hlaut flokkurinn 26,7 prósent atkvæða.
Framsóknarflokkurinn mælist nú með um tólf prósent fylgi. Flokkurinn heldur áfram að bæta lítillega við sig á milli mánaða en fylgi flokksins mældist 8,9 prósent í maí, sem er með því lægsta sem það hefur nokkru sinni mælst. Björt framtíð heldur áfram að dala í vinsældum hjá kjósendum og fylgi flokksins mælist nú um fimm prósent. Vinstri grænir tapa líka fylgi á milli mánaða og mælast nú með um níu prósent fylgi.
Samfylkingin bætir við sig fylgi og um tólf prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag.