„Við höfum lagt ríka áherslu á að starfsemi bankans sé í samræmi við samkeppnislög og höfum m.a. skipað sérstakan ábyrgðaraðila samkeppnismála sem er með reglulegt eftirlit með samkeppnismálum innan bankans,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, en bankinn greiddi 380 milljóna króna sekt vegna samkeppnislagabrota. Eins og greint var frá í dag gerðu stóru bankarnir allir sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess á greiðslukortamarkaðnum hér á landi. Samanlagt þurfa bankarnir, og síðan Valitor og Borgun, að greiða 1.620 milljónir króna. Landsbankinn og Arion banki greiða 450 milljónir króna hvor, Valitor 220 milljónir og Borgun 120 milljónir.
Birna fagnar því að málinu sé lokið. „Ég fagna því að það sé komin niðurstaða í þetta mál. Íslandsbanki hefur í þessu máli átt gott samstarf með Samkeppniseftirlitinu og var fyrstur málsaðila til að ná sátt. Samkeppniseftirlitið leit til þess í ákvörðun sekta og hlaut Íslandsbankinn því lægstu sektina af viðskiptabönkunum þar sem samstarfsvilji bankans hafði jákvæð áhrif á framgöngu málsins í heild. Starfsmenn bankans voru í góðri trú um að þetta fyrirkomulag væri löglegt og eru engin gögn í málinu sem sýna annað. Í sáttinni er kveðið á um að bankarnir skuli hagræða í þeim rekstri sínum sem tengist kortaútgáfu og þjónustu við korthafa. Nýlega samdi bankinn við MasterCard Europe um útgáfu á öllum kortum bankans. Með því að velja einn samstarfsaðila getur bankinn betur mætt auknum kröfum viðskiptavina tengdum t.a.m. netbanka og tækninýjungum en erum um leið að hagræða og einfalda vöruframboð sem er í takt við kröfur Samkeppniseftirlitsins,“ sagði Birna.