Árleg markaðsverðlaun ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn í hádeginu, en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti markaðsmanni og markaðsfyrirtæki ársins verðlaun fyrir árið 2014.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hlaut verðlaunin Markaðsmaður ársins. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári. Við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu.
Að þessu sinni voru fimm fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna Markaðsfyrirtæki ársins, það er Íslandsbanki, Landsbankinn, Nova, Ölgerðin og Össur. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á líðandi ári og sannað þykir að hafi náð sýnilegum árangri. Valið byggir á ítarlegu ferli dómnefndar þar sem lagt er mat á fagmennsku við markaðsstarfið, árangur og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar. Að þessu sinni hreppti fjarskiptafyrirtækið Nova verðlaunin.
ÍMARK hefur veitt Markaðsverðlaunin frá árinu 1991, en markmið þeirra er að stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja.
Nánari upplýsingar um Markaðsverðlaun ÍMARK og vinningshafa fyrri ára er að finna á vef samtakanna.