Alls voru 86 kaupsamningar þinglýstir á höfuðborgarsvæðinu í vikunni 12. til 18. júní. Meðalupphæð samnings var 38,4 milljónir króna en 65 samningar voru um eignir í fjölbýli, 15 samningar voru um sérbýli og sex samningar voru um annars konar eiginir en íbúðarhúsnæði. Heildarvelta var alls 3.304 milljónir króna.
Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár Íslands, sem undir venjulegum kringumstæðum birtir vikulega upplýsingar um veltu og fjölda viðskipta á fasteignarmarkaði. Fréttin í dag um veltu og viðskipti á höfuðborgarsvæðinu er aftur á móti sú fyrsta í tíu vikur. Síðast birtust upplýsingar um fasteignamarkaðinn í höfuðborginni fyrir vikuna 3. til 9. apríl. Ástæðan er verkfall lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Verkfallinu lauk þann 13. júní, þegar ríkisstjórnin samþykkti lög sem stöðvuðu verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BHM með lagasetningu. Engum skjölum um fasteignaviðskipti hefur verið þinglýst hjá sýslumanni frá því verkfall lögfræðinga hófst í fyrri hluta aprílmánaðar. Nú þegar þinglýsing er hafin á ný má gera ráð fyrir að áhrifa þess gæti í vikulegu yfirlitið Þjóðskrár um veltu og viðskipti á fasteignamarkaði. Því mun aftur fást mynd af þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki hefur verið aðgengileg í á þriðja mánuð.
Á föstudaginn síðasta var stefna Bandalags háskólamanna, BHM, gegn ríkinu þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur. BHM telur lagasetningu ríkisins gegn verkfallsaðgerðunum fela í sér ólögmætt inngrip í starfsemi stéttarfélagsins. Málið hlýtur flýtimeðferð og verður tekið fyrir þann 3. júlí næstkomandi.